Gunnar Nelson tapaði sínum fyrsta UFC-bardaga í kvöld. Rick Story tókst að halda Gunnari frá sér allan bardagann, og Gunnar náði aldrei að taka Story niður, eins og hann hefði þurft að gera. Bardaginn fór í fimm lotur, eitthvað sem Gunnar hefur aldrei áður lent í, og sást það augljóslega á bardagamönnunum, sem voru örþreyttir í lok bardagans.
Story var ótrúlega höggþungur og svaraði höggunum vel og kom í veg fyrir að Gunnar næði honum niður. Aðdáendur Gunnars á Stúdentakjallaranum voru sjáanlega slegnir yfir þessu fyrsta tapi Gunnars, en hann tók því sjálfur af sinni stóísku ró.
Lýsing kvöldsins:
Aðalbardagar kvöldsins í UFC Fight Night eru að hefjast í Stokkhólmi. Gunnar Nelson er í fjórða og síðasta bardaga kvöldsins. Lýsendur UFC spöruðu ekki lýsingarorðin um Gunna þegar bardagar kvöldsins voru kynntir, þó svo að þeir hafi bent á að Story hafi unnið mjög erfiða bardaga, meðal annars gegn Johnny Hendricks, titilhafa í veltivigt.
Mikill áhugi hefur verið í aðdraganda bardagans, eins og sjá má á því fjölmenni sem er saman komið á Stúdentakjallaranum. Bardagar kvöldsins eru sýndir víða, en ekki er ólíklegt að víða sé þröngt orðið á þingi.
Fyrsta bardaganum lauk í fyrstu lotu með rothöggi eftir eina mínútu og 19 sekúndur. Wilkinson greiddi Baxter rothögg eftir að Baxter hafði opnað vörn sína um of.
Öðrum bardaga kvöldsins lauk eins og þeim fyrsta, nánast áður en hann byrjaði. Jan Blachowicz vann með rothöggi eða tæknilegu rothöggi gegn Ilir Latifi eftir aðeins 1 mínútu og 58 sekúndur. Skandinövum hefur ekki vegnað vel í kvöld, því í báðum bardögunum hafa Svíjar tapað.
Þriðji bardaginn var ekki mikið lengri en tveir hinir fyrri, því Max Holloway afgreiddi Akira Corassani með sannfærandi hætti eftir 3 mínútur og 11 sekúndur. Bardagar kvöldsins hafa því samtals staðið í rétt rúmar sex mínútur.
Gunnar er næstur í búrið. Spennan er áþreifanleg. Þar sem bardagar kvöldsins hafa verið mjög stuttir gæti UFC ákveðið að tefja dagskrána með einhverjum hætti. Blaðamaður mbl.is má ekki við slíkri óþarfa bið, því hnúturinn í maganum er óbærilegur.
<div> <div><span>Loading</span></div> </div>Gunni gengur inn
<a href="https://instagram.com/p/tvlpBEPUsf/" target="_top"> View on Instagram</a>
Rick Story var lafandi hræddur við Gunna eftir að hann landaði tveimur góðum höggum á Story. Eftir það virtist Gunnar stjórna því sem fór fram í búrinu. Þeir tóku hægan dans í miðju búrsins þangað til Gunnar náði Story niður, en Rick Story stóð upp aftur.
Gunni hrasaði, og gestir Stúdentakjallarans tóku andköf. Hann stóð þó upp aftur án þess að það hefði sýnileg áhrif á hann.
Gunnari tókst ekki að klára Story í fyrstu lotu, og það blæddi úr nefinu á honum þegar lotunni lauk.
Story tók Gunna niður í gólfið í annarri lotu, en fór ekki á eftir honum. Skiljanlega, Gunnar er mjög sterkur í gólfinu. Þetta er augljóslega erfiðasti bardagi Gunnars til þessa. Um miðja aðra lotu fór að blæða talsvert úr höfði Story, en það virtist ekkert fá á hann.
Þegar mínúta var eftir af annarri lotu náði Gunnar nokkrum góðum höggum á Story, en þeir virðast báðir þreyttir. Jón Viðar, formaður Mjölnis, kallar inn í búrið til Gunna um að lotan sé alveg að klárast. Gunnar virðist meiddur þegar þriðja lota hefst.
Gunnari virðist ekki takast að halda Story niðri, en hann er miklu höggþyngri en Story virðist hafa gert sér grein fyrir áður en bardaginn hófst. Gunnar virðist finna til í nefinu, gæti verið nefbrotinn.
„Þetta er eins og að veiða lax með höndunum“ heyrðist í áhorfendaskaranum á Stúdentakjallaranum. Það er ekki fjarri lagi. Í þriðju loti virðist Gunni vera að tapa á stigum, hann þarf að ná Story niður. Í lok þriðju lotu sýna þeir þó hvor öðrum að það er engin raunveruleg óvild á milli þeirra.
Story náði Gunnari í gólfið og lét höggin dynja á honum í upphafi fjórðu lotu. Þetta er staða sem Gunnar hefur aldrei verið í, en hann gefst ekki upp, heldur reynir að ná honum niður, en tekst það ekki. Eftir þetta er Gunnar greinilega að tapa á stigum. Þeir eru báðir dauðuppgefnir eftir fjórar lotur. Gunnar verður að ná honum niður og klára í síðustu lotunni.
Story er álíka blóðugur og DOOM-karakter í fimmtu lotu, en Gunnar Nelson á í mestu vandræðum með hann. Jón Viðar öskrar á Gunnar til að hvetja hann áfram, og bendir honum á að tvær og hálf mínúta er enginn tími. Það virðist vera heil eilífð. Það blæðir hisn vegar hressilega úr Rick Story, eins og Dóri DNA orðaði það. Story virðist taka bardagann á stigum, en spurningin er hvað dómurunum finnst.