Ráðstefna um jafnfrétti kynjanna, þar sem aðeins karlmenn koma saman og ræða um hvað þurfi að gera til að bæta stöðu kvenna í heiminum, hefur fengið blendin viðbrögð. Meðal annars hefur verið bent á að ráðstefna hvítra um kynþáttahyggju væri óviðeigandi.
Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra tilkynnti í ræðu sinni á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna í New York í síðustu viku að Ísland hefði forgöngu, ásamt Súrinam, um að halda ráðstefnuna. Hún skal haldin í New York í byrjun næsta árs.
Í ræðu sinni sagði Gunnar Bragi karlaráðstefnuna vera einstakt framlag en málþingið er hluti af herferð UN Women, HeForShe, sem leikkonan Emma Watson hleypti af stokkunum.
Meðal þeirra sem tjáð sig um ráðstefnuna er Erica Buist, dálkahöfundur hjá breska dagblaðinu Guardian. Hún segir að mögulega sé ráðstefna karlmanna jákvætt skref í átt til þess að þeir leggi baráttunni um jafnrétti kynjanna lið.
Buist segir hins vegar að hún hafi það á tilfinningunni að ráðstefna um kynjajafnrétti án aðkomu annars kynsins geti ekki talist uppbyggjandi. „Án nokkurs vafa yrði ráðstefna hvítra um kynþáttahyggju talin óviðeigandi og ekki til þess gerð að bæta úr málum. Hvers vegna erum við þá að velta því fyrir okkur hvort ráðstefna um jafnrétti kynjanna án kvenna sé góð hugmynd?“
Hún segir að það hafi verið löng og ströng barátta kvenna að koma umræðunni upp á yfirborðið. „Lyktar rakarastofuráðstefna um jafnrétti kynjanna ekki af frasnaum: „Við tökum við núna, vinan“?“
Frétt mbl.is: Aðeins karlar á jafnréttisráðstefnu Íslands
Frétt mbl.is: „Karlar geta ekki setið hljóðir hjá“