Fyrst Íslendinga á tind Manaslu

Anna Svavarsdóttir er fyrsti Íslendingurinn til þess að standa á …
Anna Svavarsdóttir er fyrsti Íslendingurinn til þess að standa á tindi Manaslu í Nepal - þessi mynd er tekin sama dag og tindinum var náð Úr einkasafni Önnu Svavarsdóttur

Anna Svavarsdóttir kemur til Íslands í dag eftir að hafa klifið áttunda hæsta fjall heims, Manaslu í Nepal fyrst Íslendinga. Manaslu er talið eitt erfiðasta fjall heims að klífa enda þekkt fyrir válynd veður og snjóflóð tíð.

Manaslu er 8.156 metrar að hæð og er annað fjallið sem Anna klífur sem er yfir átta þúsund metrar að hæð því árið 2003 varð hún fyrst íslenskra kvenna til að toppa Cho Oyu, sem er einnig í Himalajafjöllunum. Cho Oyu er 8.201 metri að hæð. Áður en Anna komst á tindinn höfðu þrír Íslendingar staðið þar áður, þeir Björn Ólafsson, Einar Stefánsson og Hallgrímur Magnússon sem gengu á Cho Oyu árið 1995.

Er sveitastelpa frá Drumboddsstöðum sem vann við flúðasiglingar í Nepal

Aðspurð um fjallaáhugann er Anna fljót að svara: „Ég er sveitastelpa,“ en hún er fædd og uppalin á Drumboddsstöðum í Árnessýslu. Á þeim bæ voru þau Vilborg Hannesdóttir og Björn Gíslason, heitinn, með bækistöðvar þegar þau hófu að bjóða upp á flúðasiglingar á Hvítá upp úr miðjum níunda áratug síðustu aldar.

Anna segir að hún hafi alltaf verið að skottast í kringum þau og endaði sem leiðsögumaður í siglingunum hjá þeim. Þaðan lá leiðin til Nepal þar sem hún starfaði sem leiðsögumaður í flúðasiglinum um tvítugt. „Í Nepal kynntist ég fjallamennskunni fyrir alvöru enda tvennt sem þetta svæði er einkum þekkt fyrir – flúðasiglingar og öfgafjallamennsku,“ segir Anna.

Hvers vegna Manaslu varð fyrir valinu segir Anna að þar hafi ráðið miklu að það er talsvert um leiðangra á fjallið og það sé betra að vita af fleirum á sömu leið. Anna var þó ekki í skipulögðum leiðangri með fleirum heldur var hún ein á ferð ásamt tveimur leiðsögumönnum. Ástæðuna fyrir því má rekja til þess að hún reyndi við Manaslu í fyrra en varð frá að hverfa. Að hennar sögn var það einkum vegna þess að hún var ósátt við ákvarðanir sem leiðangursstjórinn tók í ferðinni en eins og nauðsynlegt er í slíkum ferðum þá er hann einvaldur. Jafnframt var veðrið slæmt á þessum tíma sem þau reyndu við tindinn í fyrra.

„En nú var ég einræðisherrann,“ segir Anna en bætir við að með henni voru tveir leiðsögumenn sem hefðu gripið inn ef eitthvað hefði bjátað á hjá henni.

Níu daga úr grunnbúðum á tindinn

Það var í raun skyndiákvörðun hjá Önnu að skella sér á Manaslu í ár. „Ég var að vafra á netinu í byrjun ágúst og spá í hvað ég ætti að gera. Ég ræddi við vinkonu mína Sharada Dhakal  í Nepal sem rekur ferðaskrifstofuna Himalayan Rst Expedition í Nepal, en við unnum saman í flúðasiglingunum á sínum tíma, hvort þau væru með eitthvað í gangi á þessum tíma á Manaslu en hún kvað svo ekki vera. En hún bauðst um leið til þess að búa til leiðangur fyrir mig sem hún gerði. Mánuði síðar var ég komin á tind Manaslu,“ segir Anna en persónuleg tenging hennar við Sharada gerði það að verkum að  það tók aðeins þrjár vikur, frá því ákvörðunin var tekin, að ná á tindinn.

„Ég gat algjörlega gert þetta eftir mínu eigin höfði sem var gamall draumur. Ég var með kenningar um að það væri hægt að gera þetta á annan hátt en hefðbundið er.  Það sem ég gerði var að fara þetta mjög hratt, eiginlega óvenju hratt, eða samanlagt á tveimur vikum. Ég var níu daga á leiðinni upp, það er ég var á tindinum níu dögum eftir að ég steig á fjallið,“ segir Anna sem var einnig snögg niður af fjallinu.

Að sögn Önnu var hún þrjá daga í grunnbúðum áður en hún lagði á fjallið en á leiðinni í grunnbúðir gekk Anna yfir fjallaskarðið Larke Pass sem er  5.200 metra hátt þannig að hæðaraðlögunin hófst strax þar. Fyrstu tvær næturnar gisti hún í fyrstu búðum sem eru í rúmum fimm þúsund metrum. Þaðan fór hún í búðir tvö sem eru í 6.200 metra hæð og var þar í fjórar nætur en hún segir að það hafi verið erfiðasti áfanginn að komast þangað. Þaðan fór Anna í búðir þrjú og í beinu framhaldi í búðir fjögur áður en tindinum var náð þann 25. september klukkan 11 að morgni.

Þetta er alltaf erfitt 

„Svona verkefni eru alltaf erfið og þau taka alltaf á. Þetta er þriðja atlagan mín að fjalli sem er yfir átta þúsund metrar og það er alltaf erfitt þegar um svo mikla hæð er að ræða. Ég leyni því ekki og maður er með höfuðverk allan tímann.  En ég tel að ef þú heldur ró þinni og farir rólega – mér er sko alveg sama að vera síðust í búðir að kvöldi,“ segir Anna og hlær við.

Hún segir að það sé gríðarlega mikilvægt að að gefa sér tíma. „ Að setja daginn upp þannig að þú forðist það verða móður og losna um leið við háfjallahóstann sem fylgir oft mæðinni. En auðvitað þarftu að anda hratt því það er svo ofsalega lítið af lofti í svo mikilli hæð,“ segir Anna.

Að sögn Önnu skipuleggur hún daginn í svona ferðum þannig að fara frekar fyrr af stað á morgnana en yfirleitt er gert og klæða sig bara þeim mun betur.  „Það munar líka svo miklu að vera ein á ferð því þá getur þú stjórnað ferðinni sjálf.“

Anna segir að flestir fari á Manaslu að vori til líkt og á Everest og önnur há fjöll í Himalajafjöllunum en vorið 2012 fórust tólf á Manaslu en fleiri tugir hafa farist þar frá því fjallið var fyrst klifið af japönskum leiðangri árið 1956.

Lenti í snjóflóði á Manaslu 2012 en náði tindinum núna

Ein þeirra sem Anna hitti á ferð sinni á fjallið nú er norsk kona sem lenti í snjóflóðinu vorið 2012 og bjargaðist naumlega en hún var grafin upp úr flóðinu.

„Hún var mætt á Manaslu aftur og tókst ætlunarverkið eða eins og hún sagði þegar ég hitti hana á Manaslu:  Mér fannst að ég þyrfti að klára þetta svo ég gæti haldið áfram. Því þetta hefur áhrif á líf mitt nánast alla daga.“

Eins og áður sagði er Anna væntanleg til landsins í dag og nú bíður hennar atvinnuleit þar sem henni var sagt upp hjá Ístaki fyrr á árinu vegna verkefnaskorts hjá fyrirtækinu. Hennar síðasta verkefni hjá fyrirtækinu var á Grænlandi en hún hefur starfað hjá Ístaki í fimmtán ár.

 Anna viðurkennir að það sé draumurinn að fara á hæsta fjall jarðar, Everest, en það sem hefur helst stöðvað för Önnu þangað er kostnaðurinn við slíkt ferðalag.

„ En auðvitað langar mig að komast á Everest ég leyni því ekki. Þetta er svona á bak við eyrað,“ segir Anna þegar mbl.is náði í hana á flugvellinum í Kaupmannahöfn  í morgun þar sem hún beið eftir fluginu heim.

Anna Svavarsdóttir kleif Cho Oyu árið 2003. Nú hefur hún …
Anna Svavarsdóttir kleif Cho Oyu árið 2003. Nú hefur hún einnig lagt annan tind, sem er yfir átta þúsund metrar að hæð, Manaslu, að baki.
Manaslu er eitt af fjórum erfiðustu fjöllum heims meðal annars …
Manaslu er eitt af fjórum erfiðustu fjöllum heims meðal annars vegna þess hversu válynd veður eru þar oft. Úr einkasafni Önnu Svavarsdóttur
Anna Svavarsdóttir stóð fyrst Íslendinga á tindi Manaslu þann 25. …
Anna Svavarsdóttir stóð fyrst Íslendinga á tindi Manaslu þann 25. september sl. Úr einkasafni Önnu Svavarsdóttur
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka