Hætt að taka slátur eftir 38 ár

Ásthildur segir vambirnar ekki aðeins ílát undir hræruna, heldur séu …
Ásthildur segir vambirnar ekki aðeins ílát undir hræruna, heldur séu þær stór hluti af slátrinu. Á myndinni má sjá nemendur í Hússtjórnarskólanum í Reykjavík vinna með gervivambir. mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson

Ásthildur Skjaldardóttir, bóndi á Bakka á Kjalarnesi, hyggst ekki taka slátur í ár líkt og síðastliðin 38 ár. Ástæðan er sú að ekki er lengur hægt að kaupa vambir í verslunum hér á landi, aðeins gervivambir, eða svokallaða prótínkeppi.

Hún segir að fjölskyldan hafi tekið slátur á hverju ári og hittist reglulega yfir veturinn og borði afraksturinn saman.

 „Mér finnst gæta ákveðins misskilnings, að gervivambir komi í staðinn fyrir vambirnar. Þær eru ekki aðeins ílát undir hræruna, heldur stór hluti af slátrinu og það sem gerir það svo gott,“ segir Ásthildur í samtali við mbl.is.

Ásthildur hóf búskaup um tvítugt og lærði þá að taka slátur. Hún kenndi börnum sínum og barnabörnum og hefur þannig komið hefðinni áfram milli kynslóða.

„Mér finnst þetta aðför að matarmenningu Íslendinga,“ segir Áshildur sem þykir miður að þekkingin, að sauma vambir við sláturgerð, muni nú tapast þar aðgengi að vömbum verður takmarkað.

Ætla má að einhverjir vinni vambirnar sjálfir heima við en sjálf segist Ásthildur ekki kunna að vinna vömbina frá grunni. Aðspurð segist hún ekki hafa heyrt af því að bændur hafi boðið vambir til sölu beint frá býli.

Yfirleitt er hægt að sauma fimm til sex keppi úr einni vömb. Í fyrra seldust 15 þúsund vambir í verslunum hér á landi og má því ætla að hátt í 90 þúsund keppir hafi verið gerðir úr vömbunum. 

Fréttir mbl.is um málið: 

Ósáttar við skort á vömbum

Ekki lengur hægt að kaupa vambir

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert