Ísjaki úr Jökulsárlóni mun gegna mikilvægu hlutverki á tónleikum bresku hljómsveitarinnar Madness í kvöld. Jakinn hefur verið fluttur frá Jökulsárlóni til London og verður hann á sviði með sveitinni.
Ísjaki er hluti af listaverkinu Goodbye Planet Earth eftir íslensk-norsku listakonuna Björg Thorhallsdottir. Tilgangur verksins er að beina athyglinni að loftlagsbreytingum og áhrifum þeirra á jökla heimsins.
Ísjakinn er í laginu eins og demantur og verður til sýnis í nokkra daga. Í fréttatilkynningu kemur fram að það sé myndlíking fyrir jökla heimsins sem bráðna nú vegna loftlagsbreytinga.
Það eru félagasamtökin Vox Naturae sem standa að verkefninu ásamt Björgu og Madness.
„Við erum trúlegast einu félagasamtökin sem vinna sérstaklega í að kalla á aðgerðir við því að snjór og ís fari ört hopandi um allan heim. Með því að sýna fólki bráðnandi ísjaki erum við virkilega að tengja fólk við áhrif loftlagsbreytinga,“ segir Páll Ásgeir Davíðsson, framkvæmdarstjóri Vox Naturae í samtali við mbl.is.
„Ís er svo áþreifanlegur og þannig finnur fólk áhrifin best. Síðan með því að tengja okkur við listamenn sköpum við möguleikann á því að fá fólk til að hugsa um umhverfismál og tengja við það á tilfinningalegum grundvelli.“
Að sögn Páls voru það Icelandair Cargo, íslenskir fjallaleiðsögumenn, ferðaþjónustan á Jökulsárlóni og Iceland Excursions sem tóku höndum saman með Vox Naturae til að koma jökulbútnum frá lóninu til London.
Listaverk Bjargar var hannað sem svar við lagi tónlistarmannsins Cathal Smyth, meðlims Madness. Ísjakinn verður sýndur á tónleikum Madness og á listasýningu í Wilton Music Hall í London næstu daga.
Páll Ásgeir segir að hljómsveitinni lítist vel á listaverkið. „Hljómsveitin er heit fyrir þessu. Cathal Smyth sagði sjálfur að þetta væri alveg frábær hugmynd. Hann kallaði þetta „brilliant“.“
Hér að neðan má sjá kynningarmyndband á verkefninu og heyrist lag Cathal Smyth, Goodbye Planet Earth undir.
VOX NATURAE - Generating awareness of glaciers from Ágústa Margrét on Vimeo.