Starfsfólk höfuðstöðva Fiskistofu í Hafnarfirði er þegar farið að líta í kringum sig og huga að öðrum störfum. Enn sem komið er virðist aðeins einn starfsmaður stofnunarinnar ætla að flytja með henni til Akureyrar. Frumvarp vegna flutninga ríkisstofnana verður lagt fram á Alþingi fyrir jól.
Þetta segir Jóhanna S. Vilhjálmsdóttir, trúnaðarmaður Fiskistofu gagnvart SFR – stéttarfélagi í almannaþjónustu.
Samkvæmt heimildum mbl.is fjallar frumvarpið um breytingar á lögum um stjórnarráð Íslands og vinnur forsætisráðuneytið að breytingunum. Áður var heimild í lögunum fyrir ráðherra til að ákveða staðsetningu stofnana en heimildin féll úr lögum við endurskoðun laganna. Með frumvarpinu sem leggja á fyrir á Alþingi stendur til að endurvekja greinina og þar með heimild ráðherra.
Fiskistofa annast framkvæmd laga um stjórn fiskveiða, hefur eftirlit með fiskveiðum og sér um álagningu gjalds vegna ólögmæts sjávarafla.
Að sögn Jóhönnu stendur til að leggja fram frumvarp á Alþingi á næstu vikum eða mánuðum sem snýr að flutningi stofnunarinnar sem og öðrum ríkisstofnunum. Verði frumvarpið að lögum, verður heimilt að flytja stofnanir milli svæða. „Þetta er enn ekki löglegur gjörningur,“ segir Jóhanna.
„Okkur er sagt að þar sem þetta er stjórnarfrumvarp, þá fari þau alltaf í gegn. Við vonum þó að svo verði ekki, svona vegna framtíðarinnar. Allar stofnanir á vegum ríkisins gætu þá orðið fyrir geðþóttaákvörðun ráðherra, það er alvarlegt mál að ráðherra geti haft líf fjölda fólks í hendi sér.“
„Við erum mjög sorgmædd vegna stöðu mála og er einn starfsmaður þegar hættur. Við megum búast því að starfsfólk fari að hugsa sinn gang þegar við erum á þessu óvissustigi,“ segir Jóhanna í samtali við mbl.is og bætir við að margir séu þegar farnir að líta í kringum sig eftir öðru starfi.
Áður hefur komið fram að aðeins einn starfsmaður ætli að flytja með stofnuninni norður, forstjóri Fiskistofu, og hefur það ekki breyst að sögn Jóhönnu.
Jóhanna segir að stefnt sé að því að flytja höfuðstöðvarnar þann 1. júlí á næsta ári. Starfsmaður hefur unnið að undirbúningi flutnings stofnunarinnar síðustu vikur og mánuði, eða áður en starfsfólkið fékk bréf frá ráðherra vegna flutningsins.
„Við erum mjög sorgmædd og reið,“ segir Jóhanna, aðspurð um líðan starfsfólksins. „Það er þó baráttuhugur í okkur, við stöndum saman og höldum hvert utan um annað.“