Geðrannsókn stendur nú yfir á manninum sem grunaður er um að hafa banað konu sinni í íbúð þeirra í Stelkshólum í Reykjavík þann 27. september. Að sögn Kristjáns Inga Kristjánssonar, aðstoðaryfirlögregluþjóns, er geðrannsókn hafin en hún getur tekið upp undir mánuð.
Kristján segir geðrannsóknina ekki hafa áhrif á lögreglurannsókn málsins. „Rannsóknin miðar vel og er langt komin.“
Niðurstaða geðrannsóknarinnar kemur svo til kasta dómstóla ef ákært verður í málinu. „Málið er bara rannsakað á eðlilegan hátt og geðrannsóknin sker úr um hvort viðkomandi sé sakhæfur eða ekki. Málið fer svo frá okkur til ríkissaksóknara sem tekur ákvörðun um það hvort ákært verði í málinu eða ekki,“ segir Kristján.
Hinn grunaði situr í gæsluvarðhaldi til 17. október. Að sögn Kristjáns verður ákvörðun um það hvort krafist verði áframhaldandi gæsluvarðhaldi, tekin þegar nær dregur.