„Tjáningarfrelsið og stjórnarskráin er ekki virt, en hún heimilar að stofnað sé til friðsamlegra mótmæla. Það að við séum dæmd fyrir það eru auðvitað mjög slæm tíðindi fyrir réttarríkið Íslands,“ segir Gunnsteinn Ólafsson, einn níumenninganna sem dæmdur var til sektargreiðslu í dag fyrir mótmæli í Gálgahrauni í fyrra.
Hann segist ekki búinn að ákveða hvert næsta skref verður. „Nei, enda kom þessi niðurstaða alveg flatt upp á okkur, að við séum dæmd fyrir að reyna að koma í veg fyrir lögbrot. Það er tjáningarfrelsið sem við erum að nota í skjóli stjórnarskráinnar. Við höfum leyfi til þess að stofna til friðsamlegra mótmæla. Með því að dæma okkur fyrir það, þá erum við að sigla inn í einhvers konar ríki sem við viljum ekki sjá,“ segir Gunnsteinn.
Hann segir ákæruna gegn sér ekki halda vatni. „Ég er ákærður fyrir að víkja ekki af vinnusvæði, en ég fór aldrei inn á vinnusvæðið. Þetta er fölsk ákæra en samt er ég dæmdur,“ segir Gunnsteinn að lokum.