Snúningurinn í SPRON-málinu

Aðdragandi lánveitingar þeirrar sem sérstakur saksóknari ákærði fyrir í SPRON-málinu svonefnda var sá að 18. september 2008 veitti vátryggingafélagið VÍS fjögurra milljarða króna peningamarkaðslán til Exista. Það var framlengt til 22. september, aftur til 29. september og að lokum til 30. september en þá greiddi Exista lánið til baka, að hálfu með láninu frá SPRON og fyrir það er ákært.

Áður en SPRON lánaði Exista tvo milljarða fékk sparisjóðurinn peningamarkaðslán frá VÍS upp á sömu upphæð. Þeir fjármunir sem VÍS lánaði SPRON voru því notaðir til að fjármagna lánið til Exista. „Var staðan eftir þennan snúning sú að áhætta VÍS gagnvart Existu minnkaði um tvo milljarða, en í staðinn hafði SPRON veitt Existu tryggingalaust lán að sömu fjárhæð. Var áhættunni af tveggja milljarða króna láni til Existu þannig velt af VÍS og yfir á SPRON, sem síðar sat uppi með fullt tjón vegna lánsins.“

Ákærð eru í málinu Guðmundur Örn Hauksson, fyrrverandi forstjóri SPRON, og stjórnarmennirnir Ari Bergmann Einarsson, Jóhann Ásgeir Baldurs, Margrét Guðmundsdóttir og Rannveig Rist. Þau eru sögð hafa misnotað aðstöðu sína hjá sparisjóðnum og stefnt fé hans í verulega hættu.

Frétt mbl.is: Lánið til Exista „mjög óvenjulegt“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert