Vefsíða sem tengist svonefndu Ríki íslams og Advania lét loka í dag er ekki lengur að finna undir íslenska léninu Khilafah.is. Henni hefur hins vegar verið skipt út fyrir einföld skilaboð undir merki Ríkis íslams þar sem endurkoma síðunnar er boðuð.
Skilaboðin eru: „In'shaa'Allah this website will return soon.“ Sem útleggst: „Ef Allah lofar opnar þessi vefsíða brátt aftur.“ Orðalagið „In'shaa'Allah“ er notað yfir fyrirætlanir sem gert er ráð fyrir að verði að veruleika í framtíðinni. Orðalaginu er einnig ætlað að sýna undirgefni við Allah. Með fylgir slóð á Twitter-síðu sem merkt er Ríki íslam.
Sem fyrr segir lét Advania loka vefsiðunni fyrr í dag vegna brota á viðskiptaskilmálum. Síðan var hýst hjá Thor Data Center sem er í eigu fyrirtækisins. Lokunin nær þó aðeins til hýsingar síðunnar en ekki íslenska lénsins. Fram kemur á Twitter-síðunni að íslenska vefhýsingarfyrirtækið Orangewebsite hafi neitað að þjónusta vefsíðuna frekar. Fram kemur á vefsíðu fyrirtækisins að það leggi mikla áherslu á að vernda tjáningafrelsi viðskiptavina sinna og forða þeim frá ritskoðun svo lengi sem ekki sé brotið í bága við viðskiptaskilmála þess og íslensk lög.