Hægt hefði verið að koma í veg fyrir að vefsíða tengd svonefndu Ríki íslams væri skráð á íslenskt lén ef lagafrumvarp sem lagt var fram árið 2011 hefði orðið að lögum. Þetta segir Ögmundur Jónasson, þingmaður Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs, á vefsíðu sinni en hann stóð að frumvarpinu.
„Ef lagafrumvarp sem ég lagði fyrir Alþingi, á 140. þingi, hefði náð fram að ganga - en gegn því lögðust hagsmunaðilar, þar á meðal ISNIC og drjúgur hluti þingmanna, þá hefði verið ólöglegt að hýsa ISIS [annað heiti á Ríki íslams] hér. Í frumvarpinu er gert að skilyrði fyrir að nota Íslandslénið .is að viðkomandi hafi tengsl við Ísland,“ segir Ögmundur. Vísar hann til þess að í 11. grein frumvarpsins segi: „Rétthafi léns skal vera lögráða einstaklingur eða lögaðili sem hefur skráða kennitölu eða sambærilega staðfestingu frá stjórnvöldum og hafa tengsl við Ísland.“
„Þessa lagagrein er hægt að samþykkja með hraði ef menn á annað borð vilja ekki samþykkja frumvarpið í heild sinni.“