Þingið taki vefsíðumálið til skoðunar

Ögmundur Jónasson, þingmaður VG.
Ögmundur Jónasson, þingmaður VG. mbl.is/Ómar Óskarsson

„Ég ætla að gefa mér að stjórnvöld setji sig inn í málið og skoði það og þá muni þetta frumvarp sem ég lagði fram á sínum tíma koma til athugunar,“ segir Ögmundur Jónasson, þingmaður Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs, í samtali við mbl.is spurður hvort hann hafi í hyggju að leggja að nýju fram lagafrumvarp á Alþingi um landslénið .is. Hann útilokar þó ekki að leggja frumvarpið að fram að nýju í einni eða annarri mynd.

Fram kom á vefsíðu Ögmundar í dag að ef frumvarpið hefði náð fram að ganga þegar það var lagt fram þingveturinn 2011-2012 hefði verið hægt að koma í veg fyrir að vefsíða tengd svonefndu Ríki íslams væri skráð undir íslensku léni. Benti hann þar á að í 11. grein frumvarpsins væri kveðið á um að rétthafi léns skyldi vera lögráða einstaklingur eða lögaðili sem hefði skráða kennitölu eða sambærilega staðfestingu frá stjórnvöldum og hefði ennfremus tengsl við Ísland. Nægjanlegt væri að setja þennan texta inn í núgildandi lög.

Ögmundur segir að vitanlega þurfi alltaf að fara mjög gætilega þegar rætt er um að loka vefsíðum eða hindra á einhvern hátt aðgengi að internetinu. Netfrelsi ætti að hans mati alltaf að vera hin almenna regla. „En þessi hugsun hjá mér á sínum tíma var að grípa til fyrirbyggjandi aðgerða ef einhverjir aðilar vildu kenna sig við okkur sérstaklega þá væri rökrétt að óska eftir því að þeir sýni fram á að þeir hefðu einhver sérstök tengsl við okkar samfélag.“

„Þetta er mjög vendmeðfarið og því æskilegt að um þetta verði tekin góð yfirveguð umræða og ég vonast til að þingið geri það. Þá sé hugsunin sú að eitthvað svona geti gerst í okkar nafni, því þeir eru að skrá sig í okkar nafni, og um leið með hvaða hætti við getum búið þannig um hnútana að tjáningafrelsið sé varið. Það er að segja að finna þá gullnu leið.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka