Dómnefndin í nýyrðasamkeppni Aha.is hefur komist að því að besta íslenska orðið yfir „takeaway“ er útréttur. Að þeirra mati er orðið lipurt og auðvelt í notkun auk þess sem orðið réttur getur vísað bæði í nafnorðið réttur (þ.e. ákveðinn matur) sem og sagnorðið að rétta sem þótti mjög viðeigandi í því samhengi að maturinn er réttur út frá veitingastaðnum.
Netverslunin Aha.is efndi á dögunum til keppninnar að því tilefni að tekin hefur verið upp veitingaþjónusta á vefnum. Keppninni bárust hátt í 2.000 tillögur af 1.100 ólíkum orðum. Það voru 6 einstaklingar sem lögðu til orðið útréttur og var því dregið um vinningshafa. Það var Inga Sæbjörg Magnúsdóttir sem var dregin úr pottinum og hlýtur hún að launum iPhone 6 og 50 þúsund króna inneign á veitingasíðu Aha.is.
Fleiri áhugaverð orð sem bárust í keppnina voru til dæmis gripill, hremma, brotterí, bæring, veganesti, ferðaverður, heimabiti, flakksnakk, brottgott, heimalingur og flakkari.
Aha.is vonast til þess að orðið nái fótfestu í íslensku máli í stað enskuslettunnar „takeaway“ sem er almennt notuð í dag. Dæmi um hvernig nota má orðið útrétt eru til dæmis: Gæti ég fengið þetta sem útrétt? og Viltu borða í sal eða fá útrétt?