Vefsíða Ríkis íslams flutt til Lettlands

Skjáskot

Vefsíða tengd hryðjuverkasamtökunum Ríki íslams, sem hýst var hér á landi þar til í gær, hefur verið opnuð aftur eins og mbl.is greindi frá snemma í morgun. Vefsíðan er núna hýst í Lettlandi í gegnum sænskt vefhýsingarfyrirtæki.

Vefsíðan, sem hugsuð er sem eins konar fréttasíða fyrir Ríki íslams, var áður hýst af Thor Data Center, sem er í eigu Advania, í gegnum þriðja aðila. Þjónustuna keyptu aðstandendur síðunnar af íslenska vefhýsingarfyrirtækinu Orangewebsite en bæði fyrirtækin lokuðu á vefsíðuna í gær. Síðan lá niðri um tíma en boðað var að hún yrði brátt endurvakin.

Eftir sem áður er vefsíðan hins vegar skráð á íslenska lénið Khilafah.is en orðið „khilafah“ þýðir kalífadæmi sem Ríki íslams segist hafa sett á stofn á yfirráðasvæðum sínum í Sýrlandi og Írak. Áhuga samtakanna á íslensku lénasendingunni .is má líklega rekja til þess að á ensku kalla þau sig Islamic State eða IS.

Lénið er hins vegar hýst hjá hýsingarfyrirtæki í bænum Homburg í Þýskalandi en sá sem er skráður fyrir léninu heitir Azym Abdullah og er til heimilis á Nýja-Sjálandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka