„Það er ótækt að þessi samtök skuli nota íslenskt lén og ákaflega óskemmtilegt að þeir skuli kalla sig IS og nota einkennisstafi Íslands svona.“
Þetta segir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætis- og dómsmálaráðherra, í samtali við mbl.is vegna vefsíðu tengdrar hryðjuverkasamtökunum Ríki íslams sem skráð er á íslenska lénið Khilafah.is. Vakin var athygli á vefsíðunni í gær og var í kjölfarið hafin skoðun á málinu í innanríkisráðuneytinu. Fundað var um málið í ráðuneytinu í dag.
Vefsíðan var hýst á vegum Advania í gegnum þriðja aðila en þegar fyrirtækinu bárust upplýsingar um síðuna í gær lét það loka henni þar sem viðskiptaskilmálar hefðu verið brotnir. Í kjölfarið lá síðan niðri um tíma en í morgun var hún aftur komin í loftið og er nú hýst í Lettlandi í gegnum hýsingarfyrirtæki sem staðsett er í Svíþjóð. Áfram er hins vegar notast við íslenska lénið. Internet á Íslandi hf. (ISNIC) sendi frá sér yfirlýsingu í dag þar sem segir að verið sé að kanna á vegum félagsins til hvaða ráðstafana megi grípa vegna lénsins. Hliðstæð vinna er í gangi hjá innanríkisráðuneytinu.
„Ég er að láta ráðuneytið skoða hvaða leiðir eru færar til að loka þessu og koma í veg fyrir að það birtist aftur á íslensku léni. Þetta hefur ekkert með tjáningarfrelsi að gera heldur glæpsamlegt og mannfjandsamlegt athæfi. Það verður að vera hægt að loka á slíkt,“ segir Sigmundur ennfremur.