„Þetta er í raun sorgardagur hjá ISNIC. Við erum mjög döpur yfir þessu. Það er leiðinlegt að þurft hafi að gera þetta. Við vorum orðin þekkt fyrir að hafa aldrei lokað léni. Nú er það ekki lengur raunin. Þannig að þessir aðilar hafa eyðilagt mikið fyrir okkur.“
Þetta segir Jens Pétur Jensen, framkvæmdastjóri ISNIC, í samtali við mbl.is vegna ákvörðunar félagsins um að loka léninu Khilafah.is sem vefsíða sem tengdist hryðjuverkasamtökunum Ríki íslams var skráð á. Tekin var ákvörðun í stjórn félagsins þess efnis í gær í kjölfar athugunar en niðurstaða hennar var að notkun lénsins væri ekki í samræmi við íslensk lög. Kveðið er á um það í reglum ISNIC að rétthafi léns beri ábyrgð á því að svo sé.
„Ég er sjálfur ósáttur við þessa ákvörðun en ég þorði bara ekki að taka sénsinn á því hvernig þessi vika hefði liðið án hennar,“ segir Jens. Ákvörðunin hafi hins vegar ekki verið tekin strax heldur að athuguðu máli í samráði við lögfræðing félagsins. Þá hafi ekki verið um að ræða ákvörðun sem hann sem framkvæmdastjóri gat tekið þar sem um óvenjulegar stjórnarathafnir væri að ræða heldur var það gert af hálfu stjórnar fyrirtækisins.
Mikill þrýstingur úr samfélaginu hafi einnig haft áhrif. Enginn beinn þrýstingur hafi hins vegar verið frá stjórnvöldum. Jens segir að reynt hafi verið að hafa samband við þann einstakling sem skráður hafi verið fyrir léninu, bæði í gegnum síma og tölvupóst en án árangurs en rétthafi lénsins er skráður til heimilis á Nýja-Sjálandi. Hann segir aðspurður að sá möguleiki sé vissulega alltaf fyrir hendi að það hafi verið mistök af hálfu ISNIC að loka léninu og þá gæti það opnað aftur.
„Það má bæta því við að ISNIC endurgreiðir auðvitað árgjaldið af léninu. Lénið var tiltölulega nýskráð þannig að gjaldið verður endurgreitt,“ segir hann. Spurður hvort sá sem skráður hafi verið fyrir léninu geti kært ákvörðunina segir Jens svo vissulega vera en í tilfelli erlendra viðskiptavina verði þeir að fara dómstólaleiðina.