Langt síðan svo fáir létu lífið í umferðinni

Banaslysum í umferðinni hefur fækkað markvisst síðustu ár.
Banaslysum í umferðinni hefur fækkað markvisst síðustu ár. mbl.is/Árni Sæberg

„Við sjáum markvissa fækkun á banaslysum í umferðinni. Þó svo að árið sé ekki liðið virðist sem árið í ár fylgi þeirri fækkun. Til samanburðar voru tólf banaslys í fyrra og níu árið þar á undan,“ segir Ágúst Mogensen, rannsóknarstjóri umferðarslysa, í samtali við mbl.is.

Það sem af er árinu hafa fjórir látist í banaslysum í umferðinni. Eru það töluvert færri en á sama tíma í fyrra og mun færri en um aldamótin. Ágúst nefnir sem dæmi að árið 2000 hafi 32 látist í umferðinni. Á þeim árum voru banaslysin yfirleitt 25 til 30 á ári hverju. 

Tvöföldun Reykjanesbrautar hefur áhrif

Ágúst telur nokkra þætti vinna saman að fækkun banaslysa. Til að mynda hefur verið unnið markvisst að auknu umferðaröryggi, þá sérstaklega á þjóðveginum. 

„Í tengslum við þetta má nefna tvöföldun Reykjanesbrautarinnar og framkvæmdir sem standa nú yfir á Suðurlandsvegi. Þar er verið að aðgreina umferð úr gagnstæðum áttum á þjóðveginum milli Reykjavíkur og Selfoss. Jafnframt er lögreglueftirlit meira og notkun löggæslumyndavéla.“

Ökukennslan hefur þróast mikið

Ágúst nefnir líka forvarnir og bætta ökukennslu sem ástæður þess að banaslysum hefur fækkað. „Ökukennslan og æfingaaksturinn hefur þróast mikið. Kennslan er betur skipulögð og notuð er betri námskrá. Jafnframt hefur það sýnt sig að æfingaaksturinn eykur reynslu ungra ökumanna, en við höfum séð fækkun á slysum ungmenna í umferðinni.“

Jafnframt nefnir Ágúst markviss námskeið sem haldin eru fyrir þá sem hafa brotið af sér og eru á bráðabirgðaskírteini.

„Með forvörnum eykst öryggisvitundin hjá fólki, það er nokkuð ljóst,“ segir Ágúst. „Það er orðið mjög langt síðan tölur banaslysa voru svona lágar. Er það árið 1968 sem kemst hvað næst þessu en það ár létust sex í umferðinni. Það var sama ár og breytt var í hægri umferð. En ég ítreka það þó að árið er ekki búið.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka