Lokað á Ríki íslams í Svíþjóð líka

Skjáskot af vefsíðunni.

Vefhýsingarþjónusta í Svíþjóð lokaði í morgun vefsíðu tengdri hryðjuverkasamtökunum Ríki íslams sem áður var hýst hér á landi. Vefsíðan var flutt þangað um helgina í kjölfar þess að Advania hætti að hýsa hana á þeim forsendum að brotið hafi verið gegn viðskiptaskilmálum fyrirtækisins. ISNIC lokaði síðan í gær léninu Khilafah.is sem vefsíðan var tengd við af sömu ástæðum.

Fréttavefur Radio Free Europe birtir í dag svar sem vefurinn fékk í tölvupósti frá hýsingarþjónustunni Yourserver.se þar sem segir: „Með skírskotun til viðskiptaskilmála okkar er það skýr stefna okkar að notkun þjónustu Yourserver.se í sérhverjum ólögmætum tilgangi er alfarið óheimil og við fullvissum ykkur um að starfsmenn okkar leggja áherslu á að koma í veg fyrir það.“ Ennfremur segir að vefhýsingarþjónustan hafi verið upplýst um málið í morgun og einungis hafi tekið 30 mínútur að rannsaka málið og loka á síðuna í kjölfarið.

Farið er yfir þróun málsins hér á landi og að íslenska lénið hafi verið skráð á einstaking að nafni Azym Abdullah sem kemur fram að tengist fimm vefsíðum sem tengjast Ríki íslams. Meginefni fréttarinnar fjallar hins vegar um að hryðjuverkasamtökin hafi notað rafmyntina bitcoin til þess að greiða meðal annars fyrir þjónustu vegna vefsíðunnar og hvetji fólk til nota hana til þess að styrkja samtökin. Fram kemur að ástæða þess sé líklega sú að erfiðara sé að rekja bitcoin en hefðbundna gjaldmiðla.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka