Rangt að loka vefsíðu Ríkis íslams

Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata.
Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þingmaður Pírata gagnrýnir harðlega þá ákvörðun ISNIC að loka léninu Khilafah.is, sem vísaði til vefsíðu tengdrar hryðjuverkasamtökunum Ríki íslams, í þeim tilgangi að hindra aðgengi að efninu sem þar var að finna. Helgi Hrafn Gunnarsson segir á facebooksíðu sinni að slíkt sé fullkomlega óábyrg nálgun. Málefnalegra hefði verið að loka léninu með þeim rökum að Ríki íslams væri með villandi hætti að reyna að taka yfir þýðingu lénaendingarinnar .is. Vísar hann þar til þess að samtökin kalla sig Islamic State á ensku eða IS.

„Almenningur verður að hafa rétt og færi á því að rannsaka og ræða opinskátt ljótustu hugmyndirnar sem finnast í mannlegu samfélagi, sérstaklega þegar um er að ræða hrylling á borð við Ríki Islams. Ég veit að þessi ákvörðun var byggð á landslögum, enda er ég einmitt að benda á að þau landslög eru óábyrg, hættuleg og röng, sama hversu vel meint þau séu. Fólk sem vill læra eitthvað um nasisma þarf að hafa aðgang að Mein Kampf og ræðum Hitlers. Fólk sem vill læra eitthvað um Ríki Islams þarf sömuleiðis að hafa aðgang að málgagni þess,“ segir þingmaðurinn.

Helgi segir ennfremur að rannsóknarvald á alvarlegum fyrirbærum eins og Ríki íslams megi ekki liggja í höndum „einhverra örfárra útvalinna „sérfræðinga“, hvort sem það eru fréttamenn eða yfirvöld, heldur verður hver sem er að geta komist að hinu sanna í málinu á sínum eigin forsendum, með hliðsjón af því sem meðlimir Ríkis Islams fullyrða sjálfir. Það er hins vegar ekki hægt að andmæla málflutningi sem maður fær ekki að heyra“. Þá birtir þingmaðurinn tæknilegar upplýsingar um það hvernig megi finna efni vefsíðunnar þrátt fyrir að lokað hafi verið á lénið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka