Vefsíðan verði opnuð enn á ný

Skjáskot af síðunni.

„Lofaður sé Allah, ISNIC hefur neitað að heimila Khilafah.is að nota áfram lénaendinguna þeirra. Ef Allah lofar opnar vefsíðan brátt aftur.“ Þetta segir á Twitter-síðunni @QA.AF sem sömu aðilar halda úti og stóðu að vefsíðunni Khilafah.is sem aftur tengdist hryðjuverkasamtökunum Ríki íslams. ISNIC ákvað að loka léninu í gær þar sem notkun þess samrýmdist ekki íslenskum lögum.

Vakin var athygli á vefsíðunni á laugardaginn. Hún væri bæði hýst hér á landi og skráð á íslenskt lén. Í kjölfarið lokaði Advania á hýsingu síðunnar eftir að hafa frétt af innihaldi hennar þar sem það samrýmdist ekki viðskiptaskilmálum þess. Vefsíðan var hýst hjá fyrirtækinu í gegnum þriðja aðila. Í kjölfarið lá síðan niðri um tíma en var síðan opnuð aftur aðfaranótt sunnudags og hafði þá verið flutt til Lettlands í gegnum hýsingarfyrirtæki í Svíþjóð.

ISNIC ákvað síðan í kjölfarið að loka á lénið sem fyrr segir. Hafin var ennfremur skoðun á málinu í innanríkisráðuneytinu á laugardag eftir að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson dómsmálaráðherra var upplýstur um málið. Ráðherrann sagði í samtali við mbl.is í gær að sá möguleiki þyrfti að vera fyrir hendi að hægt væri að loka íslenskum lénum sem notuð væru með slíkum hætti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert