„Það verða keyptar vambir“

Nem­end­ur í Hús­stjórn­ar­skól­an­um í Reykja­vík vinna með gervi­vambir.
Nem­end­ur í Hús­stjórn­ar­skól­an­um í Reykja­vík vinna með gervi­vambir. mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson

Í dag og á meðan sala á hrá­efn­um til slát­ur­gerðar stend­ur yfir verður hægt að kaupa vambir í tveim­ur versl­un­um hér á landi.

SAH afurðir á Blönduósi hafa tekið að sér að full­verka vambir og selja í versl­un­um Krón­unn­ar á Sel­fossi og Nóa­túns í Aust­ur­veri. Þeir sem geta ekki hugsað sér slát­ur­gerð án al­vöru­vamba geta því leitað þangað.

Mbl.is greindi frá því í síðustu viku að ekki væri hægt að fá vambir til slát­ur­gerðar í versl­un­um eft­ir að Slát­ur­fé­lag Suður­lands, SS, ákvað að selja ekki full­unn­ar vambir í versl­an­ir í ár. Ástæðan er sú að SS sá ekki fram á að hægt væri að halda áfram vinnslu vam­banna með til­liti til kostnaðar. Þeir sem ætluðu sér að taka slát­ur urðu því að not­ast við gervi­vambir, eða svo­kallaða pró­tín­keppi.

Þarf ekki að hætta að taka slát­ur

Ásthild­ur Skjald­ar­dótt­ir, bóndi á Bakka á Kjal­ar­nesi, fagn­ar ákvörðun SAH afurða að selja vambir í versl­an­ir en hún hugðist ekki taka slát­ur í ár ef ekki væri hægt að not­ast við full­unn­ar vambir líkt og áður. Hefði það verið í fyrsta skipti sem Ásthild­ur tæki ekki slát­ur í 38 ár en hún lærði hand­tök­in þegar hún hóf bú­skap og hef­ur hefðin farið áfram milli kyn­slóða í fjöl­skyld­unni.

„Ég er al­veg óskap­lega glöð með þetta, al­veg him­in­lif­andi. Það verða keypt­ar vambir í dag og síðan verður smalað sam­an fjöl­skyld­unni í byrj­un nóv­em­ber í slát­ur­gerð,“ seg­ir Ásthild­ur sem þarf ekki að hætta að taka slát­ur í ár.

Fjöl­skyld­a Ásthild­ar hef­ur tekið slát­ur á hverju ári og hitt­ist reglu­lega yfir vet­ur­inn og borðar afrakst­ur­inn sam­an. Ekki er út­lit fyr­ir að hefðin breyt­ist fyr­ir Ásthildi eða aðra sem geta ekki hugsað sér slát­ur­gerð án full­unn­inna vamba þetta árið.

Frétt­ir mbl.is um málið:

Hefja sölu á vömb­um á morg­un

Hætt að taka slát­ur eft­ir 38 ár

Ekki leng­ur hægt að kaupa vambir

Ósátt­ar við skort á vömb­um

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert