Héraðsdómur Reykjavíkur hefur lagt fyrir Sýslumanninn í Reykjavík að leggja lögbann við þeirri athöfn Vodafone og Hringdu að veita viðskiptamönnum sínum aðgang að deildu.net og Piratebay, en þar er deilt höfundarvörðu efni.
Í úrskurði héraðsdóms segir að aðalinntak höfundaréttar sé einkaréttur höfundar til að gera eintök af verki sínu og birta það. Starfsemi umræddra vefsvæða vegi gegn þessum grundvallarrétti. „Þótt vefsvæðin hafi verið opin um skeið liggur ekki annað fyrir en að notkun og dreifing hins höfundavarða efnis standi enn yfir og nýtt efni sé sífellt að koma inn. Verður því fallist á það með sóknaraðila að brotin séu yfirvofandi í skilningi 1. mgr. 24. gr. laga nr. 31/1990.
Þá verður jafnframt fallist á það með sóknaraðila að hætta sé á að réttindin muni fara forgörðum eða verða fyrir teljandi spjöllum verði hann knúinn til að bíða dóms um þau. Umrædd höfundaréttarbrot halda áfram og höfundar verða þar með fyrir fjártjóni sem hætta er á að fáist ekki bætt þurfi sóknaraðili að bíða dóms. Verður að telja að lögbann sé áhrifamesta úrræðið til að stöðva lögbrotin.“
Þá segir að engin gögn hafi verið lögð fram sem sýni fram á að það sé mjög íþyngjandi fyrir fjarskiptafyrirtækin að loka aðgangi að umræddum vefsvæðum. Því geti getur tjáningarfrelsi fyrirtækjanna eða viðskiptamanna þeirra, sem feli m.a. í sér rétt til að miðla og nálgast upplýsingar á netinu, talist stórfellt í samhengi við sömu hagsmuni STEFS, Sambands tónskálda og eigenda flutningsréttar. „Er í því samhengi m.a. til þess að líta að unnt er að nálgast hið höfundavarða efni eftir öðrum löglegum leiðum.“
Var því fallist á kröfu STEFS og lagt fyrir Sýslumanninn í Reykjavík að leggja lögbann við þeirri athöfn fjarskiptafyrirtækjanna að veita viðskiptamönnum sínum aðgang að vefsíðunum www.deildu.net, www.deildu.com, www.thepiratebay.se, www. thepiratebay.sx og www.thepiratebay.org.