Börn fara út þrátt fyrir lítil loftgæði

Eldfjall á Leikskólanum Aðalþingi. Myndin tengist fréttinni ekki beint.
Eldfjall á Leikskólanum Aðalþingi. Myndin tengist fréttinni ekki beint. mbl.is/Ómar Óskarsson

„Loftgæðin í dag eru á mörkum þess að börn ættu að vera úti. Það er hins vegar hvergi sagt frá því og það eru ekki neinar viðvaranir til þeirra sem ættu að sjá til þess að börn séu ekki úti,“ segir Rósa Lárusdóttir, líftæknifræðingur og móðir barns á leikskóla á höfuðborgarsvæðinu. 

Hún segist hafa lagt talsvert á sig til að komast til botns í því hver beri ábyrgð á því að koma í veg fyrir að börn í leik- og grunnskólum fari út að leika þegar mengunin frá eldgosinu í Holuhrauni er yfir hættumörkum. 

Rósa segist hafa haft samband við nokkra leikskóla á höfuðborgarsvæðinu í dag til að kanna hvort skólarnir hafi athugað loftgæðin í dag, þ.e. magn brennisteinsdíóxíðs og brennisteinsvetnis. Hún á sjálf barn í leikskóla þar sem ekki var búið að athuga loftgæðin. 

Eftir að hafa rætt við nokkra leikskólastjóra segist hún hafa komist að því að þeir kunni ekki að nýta sér upplýsingar sem eru fyrir hendi um málið á netinu. „Það er svolítið löng leið að því að athuga loftgæðin og það virðist hefta það að þau afli þessara upplýsinga,“ segir hún.

Kunna ekki að lesa í tölurnar

Rósa segir að sér hafi dottið í hug að bæjarfélögin athuguðu ef til vill loftgæðin hverju sinni og miðluðu upplýsingum til grunn- og leikskóla, en svo reyndist ekki vera. 

„Það er ekkert upplýsingaflæði nema að leikskólastjórarnir sjálfir afli sér upplýsinga um það hvort börnin eigi að vera úti eða ekki sökum mengunar frá eldgosinu. Svo leitaði ég mér frekari upplýsinga hjá Umhverfisstofnun og þar var mér tjáð að þetta væri ekki í fyrsta skiptið sem þau vissu til þess að fólk skildi ekkert hvernig það ætti að afla sér viðkomandi upplýsinga og í framhaldinu hvernig ætti að lesa úr upplýsingunum,“ segir Rósa. 

„Þetta eru mjög flottar upplýsingar en það eru hnökrar sem leiða til þess að þær komast ekki til skila. Á síðunni má sjá raunmælingar á tíu mínútna fresti á mælum sem eru út um allt höfuðborgarsvæðið,“ segir hún.

„Mér finnst svolítið skrítið að það sé ekkert teymi eða hugsun á bak við það að athuga loftgæðin og miðla upplýsingunum til þeirra sem þurfa á því að halda. Það þyrftu að vera grundvallarskilaboð sem segðu til um hvort krakkar ættu að fara út þann daginn eða ekki,“ segir Rósa.

Börnin gætu þróað með sér lungnasjúkdóma

Rósa segir að börnin verði að vera inni ef mengunin er óhófleg. Allar mælingar og rannsóknir miðist við fullorðna einstaklinga á þyngdarbilinu 60 til 80 kíló.

„Ef þú sem fullorðinn einstaklingur ferð út, og það eru 300 míkrógrömm á rúmmál af brennisteinsdíóxíði, þá muntu upplifa öndunaróþægindi, særindi í hálsi og augum. Á endanum, í öfgakenndum tilfellum þegar þetta er komið yfir þúsund míkrógrömm, gæti það leitt til köfnunar,“ segir Rósa. 

Hún segir að ef börn eru úti í marga dag í senn þegar gildin eru mjög há sé mjög líklegt að þau muni upplifa einhver af þessum óþægindum og jafnvel þróa með sér lungnasjúkdóma. „Ef maður hugsar fram í tímann, þá ætti Umhverfisstofnun að vera með eitthvert plan til að koma í veg fyrir þetta. Það er hins vegar ekki til sem stendur,“ segir hún.

Vildi meina að fólk væri heimskt

Rósa segist hafa fengið þær upplýsingar hjá Umhverfisstofnun að verið væri að gera allt til að gera upplýsingarnar aðgengilegar. 

„Heimasíðan er engu að síður svolítið flókin og svo virðist fólk ekki skilja tölurnar. Það fyndnasta var þó þegar ég hafði samband við umhverfisráðuneytið, það var eitt allsherjar spaug. Sá sem ég ræddi við þar vildi bara meina að fólk væri heimskt fyrst það gæti ekki notað netið og hann þvertók fyrir að hann myndi fara að hringja í landsmenn á hverjum degi til að segja þeim hvernig loftgæðin væru. Það voru mjög furðuleg viðbrögð sem ég mætti þar á bæ,“ segir hún.

„Þegar kafað er í þetta þá eru það kannski helst Almannavarnir sem ættu að gefa út viðvaranir ef þess þyrfti. Ef þetta eldgos heldur áfram í einhvern tíma, þá þarf náttúrlega að hafa varann á svo að heilsu fólks fari ekki hrakandi, þá sérstaklega hjá börnum sem eru mjög viðkvæm fyrir þessum gastegundum,“ segir Rósa að lokum.

Uppfært kl. 19:55

Kristín Ólafsdóttir, heilbrigðisfulltrúi heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur, bendir á að sendar séu tilkynningar um loftgæði til leikskóla, grunnskóla, fjölmiðla og annarra viðeigandi aðila þegar þörf þykir, þ.e ef mengun hefur farið yfir mörk eða líklegt að hún muni gera það.

Hún bendir á að viðbragðsteymi sé til staðar hjá borginni allan ársins hring og sé virkjað ef þörf þykir. 

Kristín tekur undir að ef til vill þurfi að kenna fólki að nota vefinn til að afla sér upplýsinga um loftgæði. 

Vefur Umhverfisstofnunar

Loftgæði í Reykjavík

Sólin skín í gegnum mengunarský frá eldgosinu í Holuhrauni.
Sólin skín í gegnum mengunarský frá eldgosinu í Holuhrauni. Ljósmynd/Golli (Kjartan Þorbjörnsson)
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka