Kannast ekkert við rétthafa lénsins

Fáni hryðjuverkasamtakanna Ríkis íslams.
Fáni hryðjuverkasamtakanna Ríkis íslams. AFP

Fjölmiðlar á Nýja-Sjálandi hafa veitt því athygli að eigandi lénsins Khilafah.is hafi verið skráður til heimilis þar í landi. ISNIC lokaði léninu, sem tengdist hryðjuverkasamtökunum Ríki íslams, á sunnudaginn þar sem notkun þess væri ekki í samræmi við íslensk lög. Hins vegar virðist sem upplýsingar sem veittar voru við skráningu lénsins hafi ekki verið réttar en samkvæmt reglum ISNIC geta rangar upplýsingar um rétthafa léns leitt til lokunar þess.

Fréttavefur nýsjálenska ríkisútvarpsins TVNZ ákvað þannig að kanna heimilisfangið sem gefið var upp við skráningu lénsins hjá ISNIC. Var það rakið til öryggishólfs hjá fyrirtækinu Private Box. Haft er eftir framkvæmdastjóra fyrirtækisins, Gareth Foster, að hörmulegt hafi verið að frétta að þjónusta þess hafi hugsanlega verið nýtt í tengslum við hryðjuverkastarfsemi.

Fyrirtækið veitti heimilisfanginu sem ISNIC var gefið upp, Suite 4551 on 17b Farnham St, Parnell í borginni Auckland, öryggishólfaþjónustu en hins vegar segir Foster að sá sem var skráður fyrir léninu hjá ISNIC, Azym Abdullah, sé ekki á skrá yfir viðskiptavini fyrirtækisins. 

Fréttavefurinn NewstalkZB segir að Foster hafi ekki viljað upplýsa hver væri skráður fyrir öryggishólfinu vegna reglna fyrirtækisins en það væri ekki umræddur einstaklingur. Þá stemmi ekki símanúmer og kreditkortaupplýsingar sem gefnar hafi verið upp við öryggishólfið en fram hefur komið að símanúmerið sem ISNIC var gefið upp sé skráð í Bretlandi.

Fjöldi skúffufyrirtækja skráð á heimilisfangið

Fram kemur á fréttavef sjónvarpsstöðvarinnar Sky News í Ástralíu að svo virtist sem tugir skúffufyrirtækja væru skráð á umrætt heimilisfang en hægt hafi verið að skrá slík félög á Nýja-Sjálandi hér áður fyrr án þess að bakgrunnur þeirra væri kannaður mjög náið. Í seinni tíð hafi hins vegar verið gerðar breytingar á lögum til þess að stemma stigum við slíku.

Fréttvefur nýsjálenska dagblaðsins The New Zeland Herald segir 63 fyrirtækið skráð á heimilisfangið. Þar sé fyrirtækjum gert kleift að setja á laggirnar skrifstofu að nafninu til (e. virtual offices). Samkvæmt fréttavefnum Stuff.co.nz er slíkt ekki ólöglegt á Nýja-Sjálandi en sé gjarnan nýtt af einstaklingum og hópum til þess að geta í kjölfarið til að mynda skráð lén og opnað bankareikninga.

„Við munum starfa með yfirvöldum við að upplýsa hvaða tengsl þessi viðskiptareikningur hefur við umræddan einstakling og vefsíðu ef þau eru einhver,“ segir Foster við TVNZ og bætir við að Private Box hafi innleitt strangari öryggiskröfur í mars síðastliðnum varðandi viðskiptareikninga sem taldir væru vafasamir. Hins vegar hafi verið stofnað til umræddra viðskipta fyrir tveimur árum áður en reglunar voru hertar. Hefðu þær verið í gildi þá hefði verið sett spurningamerki við viðskiptin.

Haft er eftir Foster á NewstalkZB að unnið sé að því að yfirfara eldri viðskiptareikninga en það taki tíma þar sem fyrirtækið sé lítið. Skoða verði hvert tilfelli fyrir sig. Umræddur viðskiptareikningur hafi verið skilgreindur sem vafasamur á grundvelli nýju öryggiskrafnanna.

Haft er eftir talsmanni leyniþjónustu Nýja-Sjálands að hún vissi af málinu en hann vildi ekki tjá sig um það hvort ástæða teldist til að aðhafast vegna þess.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka