Sala á vömbum fór vel af stað í dag en frá og með deginum í dag og á meðan sala á hráefni til sláturgerðar stendur yfir er hægt að kaupa fullunnar vambir í tveimur verslunum hér á landi.
Ólafur Júlíusson, innkaupastjóri Kaupáss, segir viðskiptavini gífurlega ánægða með framtakið.
mbl.is greindi frá því í síðustu viku að ekki væri lengur hægt að fá vambir til sláturgerðar í verslunum hér á landi eftir að SS, Sláturfélag Suðurlands, ákvað að frá og með þessu hausti myndi fyrirtækið ekki selja fullunnar vambir í verslanir, heldur aðeins gervivambir eða svokallaða prótínkeppi. Vakti það hörð viðbrögð meðal landsmanna.
Ólafur segist hafa farið af stað með að reyna að útvega vambir þar sem hann fann fyrir óánægju fólks. „Við erum land sem framleiðir lamb og það að geta ekki haldið í gamlar hefðir og fengið vambir hefur vakið mikla óánægju. Þó svo að það sé ákveðin vinna að vinna þetta þá var ég ekki sáttur við þessa ákvörðun og heldur ekki viðskiptavinirnir.“
Kaupás gerði samning við SAH afurðir á Blönduósi um sölu á vömbum og að sögn Ólafs hefur ekki staðið á viðbrögðum fólks.
„Allir sem ég hef talað við eru gríðarlega ánægðir og fegnir. Ég hef fundið fyrir því að fyrir mörgum erum við einfaldlega að bjarga haustinu. Þetta er ákveðið tilfinningamál fyrir fólk sem ég skil ósköp vel. Þetta er gömul hefð og fólk er vant að koma saman og taka slátur. Með því að sleppa vömbunum var fótunum kippt undan þeim,“ segir Ólafur sem bætir við að nóg verði til af vömbum þangað til sláturtíðinni lýkur.
Hægt er að nálgast vambir í Nóatúni í Austurveri og í Krónunni á Selfossi.