Vodafone-málið fellur undir fjarskiptalög

Vodafone.
Vodafone. AFP

Úrskurðarnefnd fjarskipta- og póstmála hefur staðfest ákvörðun Póst- og fjarskiptastofnunar nr. 1/2014 um afmörkun gildissviðs fjarskiptalaga vegna vefsvæðis Fjarskipta hf. (Vodafone). Á grundvelli þessarar niðurstöðu mun Póst- og fjarskiptastofnun halda áfram efnislegri athugun sinni á því öryggisatviki sem átti sér stað í lok nóvember 2013.

Upphaf málsins má rekja til innbrots sem varð í vefsvæði Vodafone aðfaranótt 30. nóvember 2013 þar sem gögnum var stolið og þau svo birt opinberlega á netinu. Í kjölfarið hóf Póst- og fjarskiptastofnun athugun á öryggisatvikinu og óskaði eftir frekari upplýsingum um þau gögn sem stolið var, viðmót vefsvæðisins o.fl.

Vodafone andmælti því að valdsvið PFS næði yfir vefsvæði þess og þá þjónustu sem þar væri veitt. PFS tók því sérstaka ákvörðun þess efnis að sending smáskilaboða af „Mínum síðum“ félagsins félli innan gildissviðs fjarskiptalaga og væri þar með innan valdsviðs stofnunarinnar þar sem um væri að ræða almenna fjarskiptaþjónustu sem félagið veitti á almennu fjarskiptaneti sínu. Umrædd ákvörðun PFS laut þannig eingöngu að gildissviði fjarskiptalaga nr. 81/2003, en ekki að þeim gögnum sem stolið var eða hvernig öryggi kerfisins hafi verið háttað.

Vodafone kærði þessa ákvörðun PFS til úrskurðarnefndar fjarskipta- og póstmála sem nú hefur staðfest ákvörðun stofnunarinnar. Með úrskurði sínum hefur úrskurðarnefndin staðfest að sending smáskilaboða af „Mínum síðum“ á vefsvæði félagsins teljist almenn fjarskiptaþjónusta á almennu fjarskiptaneti þess. Þannig fellur umrædd fjarskiptastarfsemi Vodafone undir ákvæði fjarskiptalaga og reglur nr. 1221/2007 um vernd upplýsinga í almennum fjarskiptanetum.

Á grundvelli þessarar niðurstöðu mun Póst- og fjarskiptastofnun halda áfram efnislegri athugun sinni á því öryggisatviki sem átti sér stað í lok nóvember 2013.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert