Wikileaks fordæmir lokun vefsíðu Ríkis íslams

Julian Assange, forvarsmaður Wikileaks.
Julian Assange, forvarsmaður Wikileaks. AFP

Uppljóstrunarsamtökin Wikileaks fordæma lokun vefsíðunnar Khilafah.is sem tengdist hryðjuverkasamtökunum Ríki íslams. Þetta kemur fram á Twitter-síðu samtakanna.

Tekin var ákvörðun af hálfu Advania á laugardaginn að hætta að hýsa síðuna þegar fyrirtækinu varð ljóst hvert efni hennar var þar sem það færi gegn viðskiptaskilmálum þess en síðan var hýst í gegnum þriðja aðila. Þá ákvað ISNIC að loka léninu Khilafah.is daginn eftir þar sem notkun þess væri ekki í samræmi við íslensk lög. Eftir að Advania neitaði að hýsa vefsíðuna var hún flutt til hýsingarþjónustu í Svíþjóð sem ákvað í gærmorgun að sama skapi að hætta að þjónusta síðuna eins og mbl.is greindi frá í gær.

„Við fordæmum ákvörðun Íslands að loka fréttasíðu Ríkis íslams. Allir eiga rétt á að sjá og dæma málflutning samtakanna,“ segir í yfirlýsingu Wikileaks. Síðan segir í annarri færslu: „Ef Ísland vill ákæra einhvern fyrir tilraun til manndráps getur það gert það. Það hefur ekki gert það. Það hefur lokað á útgefanda og dregið úr þekkingu.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert