„Það þrífast auðvitað margar skoðanir innan Sjálfstæðisflokksins og mér sárnar ef hann lítur svo á að mín skoðun, að ekki sé rétt að hafa bara eitt virðisaukaskattsþrep, eigi ekki heima þar. Hann hefur sjálfur fengið að hafa sínar skoðanir óáreittur, í það minnsta af minni hálfu.“
Þetta segir Bryndís Loftsdóttir, varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins, í samtali við mbl.is. Brynjar Níelsson, þingmaður flokksins, gagnrýndi hana á Facebook-síðu sinni í dag fyrir að stofna hóp á samskiptasíðunni þar sem mótmælt er hækkun virðisaukaskatts á matvæli úr 7% í 12% eins og boðað er í fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar.
Bryndís hefur m.a. vakið athygli á þeim neylsuviðmiðum sem höfð eru til hliðsjónar í greinargerð í frumvarpi fjármálaráðuneytisins vegna breytinga á lögum um virðisaukaskatt, vörugjald og barnabætur. Í greinargerðinni er miðað við að 248 krónur fari í máltíð fyrir einstakling og 2.980 krónur fyrir matarinnkaup fjögurra manna fjölskyldu yfir daginn ef miðað er við útgjaldaflokkun úr neyslukönnun Hagstofunnar, þ.e. að 16,2% af útgjöldum heimilisins fari í mat. Hefur málið vakið hörð viðbrögð meðal almennings.
Brynjar segir að eitt sé að einstakir stjórnarþingmenn eða varamenn þeirra viðri áhyggjur og sjónarmið vegna einstakra fjárlagaliða en annað sé ef þeir berjist gegn frumvarpinu opinberlega. Veltir hann því fyrir sér hvort slíkir liðsmenn eigi hugsanlega „heima annars staðar“.
„Ég er sjálfstæðismaður í eðli mínu og sárnar þetta í raun. En hafi ég sagt eitthvað vitlaust eða rangt þá biðst ég að sjálfsögðu afsökunar á því,“ segir Bryndís.
Frétt mbl.is: