Framleiðsla heilsusalts er í undirbúningi hjá nýsköpunarfyrirtækinu Arctic Sea Minerals í Reykjanesbæ.
Fyrirtækið hefur unnið að því undanfarin tvö ár að þróa nýja lausn til að draga úr natríumnotkun en venjulegt borðsalt er um 40% natríum.
Í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag kemur fram, að nýja lausnin hjá Arctic Sea Minerals felst í því að kristalla öll söltin í nýju blöndunni saman í eitt saltkorn. Þegar það er gert þá er hægt að búa til ný saltkorn sem hafa allt að 58% minna natríum en venjulegt borðsalt, en svipað saltbragð og neytendur eru vanir að upplifa.