Haft var samband við ISNIC í gær frá utanríkisráðuneytinu þar sem félaginu var bent á að því væri óheimilt að eiga í viðskiptum við þá sem stóðu að vefsíðunni sem tengd var léninu Khilafah.is á grundvelli alþjóðlegrar löggjafar um hryðjuverkavarnir sem tekin hafi verið upp í íslensk lög. Vefsíðan og innihald hennar tengdist hryðjuverkasamtökunum Ríki íslams.
Þetta staðfestir Jens Pétur Jensen, framkvæmdastjóri ISNIC, í samtali við mbl.is. Þannig hefði félaginu borið að loka á lénið, sem og lénið Khilafa.is sem einnig var nýtt í sama tilgangi, á grundvelli umræddrar lagasetningar. Hvort sem ISNIC hefði þannig lokað lénunum eða ekki þá hefði félaginu borið að gera það á þeim forsendum. Þá var ISNIC einnig bent á að félaginu væri að sama skapi óheimilt að endurgreiða stofngjaldið vegna lénanna í ljósi löggjafarinnar.
„Ég svaraði því einfaldlega til að það hefði komið sér vel að fá þetta símtal fyrr. Það hefði sparað okkur mikið ómak,“ segir Jens. Þannig séu allar peningagreiðslur til slíkra aðila, hvort sem um sé að ræða endurgreiðslur, styrkir eða hvaeina, óheimilar sem og öll viðskipti við þá. „Þetta er ekki íslensk löggjöf heldur eitthvað sem er samþykkt af öryggisráði Sameinuðu þjóðanna. Það eru öll Vesturlönd aðilar að þessari löggjöf og fjöldi annarra ríkja.“
Hafa ekkert heyrt frá rétthafa lénanna
Lénin voru hýst hjá hýsingarþjónustu í bænum Homburg í Þýskalandi og segir Jens að honum hafi verið tjáð að væntanlega fengi það félag hliðstætt símtal frá þýska utanríkisráðuneytinu. Mbl.is greindi frá því fyrr í vikunni að vefsíðan hefði verið flutt til Lettlands í gegnum hýsingarþjónustu í Svíþjóð eftir að Advania lokaði á síðuna á laugardaginn á þeim forsendum að viðskiptaskilmálar hefðu verið brotnir. Sænska hýsingarþjónustan lokaði að sama skapi á síðuna á mánudaginn.
Spurður hvort ISNIC hafi heyrt eitthvað frá þeim einstakling sem var skáður fyrir lénunum í kjölfar þess að þeim var lokað segir Jens svo ekki vera. Eins og mbl.is fjallaði ítarlega um í gær virðist sem þær upplýsingar sem veittar voru um þann einstakling við skráningu lénanna hafi ekki verið réttar en samkvæmt reglum ISNIC getur slíkt leitt til lokunar léna. Þannig hafi til að mynda verið gefið upp heimilisfang sem ekki tengdist viðkomandi einstaklingi.
Jens segist annars ósammála því að málið sé fordæmisgefandi hvað ISNIC varðar. Þarna sé um algerlega sérstakt mál að ræða. Hafa verði einnig í huga í því sambandi að félagið sé einkafyrirtæki og ráði því fyrir vikið við hverja það eigi viðskipti. Aðspurður segir hann að þannig sé rekstrarfyrirkomulag annarra slíkra félaga í heiminum nánast undantekningalaust.