Íslendingar hafa verið iðnir við að keppa í svokölluðum járnkarli síðustu misserin og telst það mikið afrek. Höskuldur Kristvinsson, 65 ára gamall skurðlæknir, ákvað að taka það á þar næsta stig og lauk hvorki meira né minna en þreföldum járnkarli um helgina.
Hann tók þátt í Virginia Triple ANVIL keppninni sem fram fór í Virginíu í Bandaríkjunum og hófst hún 9. október og lauk tveimur dögum síðar.
Höskuldur hefur tvisvar lokið einfaldri járnkarlskeppni þar sem keppendur synda 3,8 kílómetra, hjóla 180 kílómetra og hlaupa síðan 42,2 kílómetra á 17 klukkustundum. Í mars á síðasta ári tók hann þetta lengra og keppti í tvöfaldri járnkarlskeppni á Flórída þar sem vegalengdir eru tvöfaldaðar og tímamörkin lengd upp í 36 klukkutíma.
Í keppninni núna um helgina, sem var þrefaldur járnkarl, synti Höskuldur 11,8 kílómetra, hjólaði 540 kílómetra og hljóp 126,6 kílómetra. Þetta gerði hann á 59 klukkutímum og 44 mínútum.
„Ég verð að viðurkenna að þetta er margfalt erfiðara en einfaldur járnkarl. Þetta var erfið braut með töluverðri hækkun bæði í hjólakeppninni og hlaupinu. En allar langar þrautir eru bara erfiðar,“ segir Höskuldur í samtali við mbl.is sem hljóp sitt fyrsta 100 kílómetra hlaup árið 2003 í Svíþjóð.
„Síðan hef ég farið nokkur löng hlaup og tók síðan tvo járnkarla, fyrst 2006 og svo aftur 2009. Ég keppti síðan í tvöföldum járnkarli í Flórdía í Bandaríkjunum í fyrra,“ segir Höskuldur en hann er að öllum líkindum fyrsti Íslendingurinn sem tekur þátt í þreföldum járnkarli.
Um helgina keppti Höskuldur í samfelldri lotu en keppendum er heimilt að hvíla sig að vild. Nauðsynlegt er þó að ljúka keppni á 60 klukkutímum.
„Við vorum 13 sem hófum keppni en aðeins sex sem kláruðu. Ég var í fimmta sæti af þeim sex,“ segir Höskuldur.
Fólk á öllum aldri tók þátt í keppninni en Höskuldur var elstur keppenda.
Aðspurður hvernig hægt sé að undirbúa sig fyrir keppni sem þessa segir Höskuldur nauðsynlegt að vera með ákveðið æfingakerfi. „Í raun og veru er það alveg sex til tólf mánaða ferli að undirbúa sig fyrir svona.“
Eins og áður kom fram var Höskuldur á ferðinni í tæpar 60 klukkustundir. Á þeim tíma hvíldi hann sig aðeins tvisvar og telur að hann hafi náð um 25 mínútum af svefni í heildina.
„Það er alveg rosalega erfitt að sofa svona lítið. Það var á tímabili alveg gríðarlega erfitt að halda sér vakandi og ég fékk ofskynjanir. Í eitt skiptið hélt ég einfaldlega að ég myndi ekki klára. Ég gat varla haldið augunum opnum og byrjaði að sjá ofsjónir. Gul lína á veginum byrjaði allt í einu að lyftast og snúast. Þá hugsaði ég með mér að nú þyrfti ég að hvíla og hvíldist í hálftíma,“ segir Höskuldur.
Aðspurður hvort hann ætli sér að taka aftur þátt í þreföldum járnkarli segir Höskuldur að það gæti vel verið. „Það er svo oft sem eitt leiðir af öðru en það er ekkert planað. Það getur samt vel verið.“
Höskuldur er skráður í einfaldan járnkarl ásamt dóttur sinni í Svíþjóð í ágúst á næsta ári. Er það eina keppnin sem hann er skráður í á næsta ári en það gæti vel breyst.
Höskuldur segir að ómögulegt sé að gera eitthvað svona án hjálpar. „Svona lagað gerir maður ekki einn. Fjölskyldan mín var hérna hjá mér og sá um næringu og drykki og allt þannig. Þau hvöttu mig áfram og ráku á eftir mér. Þetta hefði verið vonlaust án þeirra.“