Ráðgátan um vírinn óleyst

Lögreglan biður þá sem hafa upplýsingar um málið að hafa …
Lögreglan biður þá sem hafa upplýsingar um málið að hafa samband. mbl.is/Kristinn

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur enn ekki haft hendur í hári þess eða þeirra sem strengdu vír yfir göngu- og hjólabrúna sem liggur yfir Elliðaárósa í lok síðasta mánaðar. Lögreglan hefur lagt mikla vinnu í rannsóknina, m.a. skoðað upptökur úr eftirlitsvélum í nágrenninu.

Eins og fram hefur komið slasaðist hjólreiðamaður þegar hann hjólaði á vírinn. Maðurinn kom á nokkurri ferð inn á brúna og var höggið því talsvert þegar hann rakst á vírinn. 

Maðurinn sagði í samtali við mbl.is skömmu eftir atvikið að hann hefði sloppið ótrúlega vel en hann var með reiðhjólahjálm. Hann lenti á vinstri hliðinni og skall höfuðið í jörðina. Alls þurfti að sauma tíu spor í andlit mannsins, en hann meiddist einnig á hendi, öxl og hné. 

Maðurinn hefur kært atvikið til lögreglu.

Árni Þór Sigmundsson aðstoðaryfirlögregluþjónn segir í samtali við mbl.is að lögreglunni hafi ekki borist neinar ábendingar vegna málsins. „Við skoðuðum upptökur úr næstu eftirlitsmyndavélum sem voru þarna; við vorum búnir að leggja mikla vinnu í þetta en við fengum engar haldbærar ábendingar.“

Aðspurður segir Árni að ekkert hafi verið á sjálfum vírnum að græða. „Við erum með hann, en hann var tekinn úr handriðinu og var strengdur þarna þvert yfir. Við fórum meira að segja inn í Snarfara og fleiri staði og lögðumst yfir vélar sem gátu myndað eitthvað í áttina þarna,“ segir Árni en bætir við að það hafi verið án árangurs. 

Hann segir að atvikið hafi átt sér stað á laugardagseftirmiðdegi þegar fáir séu þarna á ferli. „Vírinn gæti þess vegna hafa verið þarna í einhverjar mínútur eða jafnvel hálftíma eða hvað það er,“ segir Árni.

Aðspurður segist Árni ekki þekkja til þess að sambærileg atvik hafi átt sér stað nýverið. Hann kveðst þó muna eftiri svipuðu máli á Suðurgötu í Reykjavík fyrir um það bil 15 árum. 

Hann tekur fram að rannsókn málsins sé enn opin og eru þeir sem telja sig hafa upplýsingar um málið beðnir að hafa samband við lögreglu í síma 444-1180.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert