Tengir stóru skjálftana við sig

Hraunáin sem kemur frá Holuhrauni.
Hraunáin sem kemur frá Holuhrauni. Ljósmynd/Morten Schioldan Riishu

„Við tengjum þessa stóru skjálfta við það að öskjugólfið í Bárðarbungu er að síga. Það er vegna þess að það er kvika þarna undir sem er að fara eitthvað annað og þá verður þrýstingsléttir,“ segir Kristín Jónsdóttir, fag­stjóri jarðvár hjá Veður­stofu Íslands, aðspurð um stóra jarðskjálfta sem hafa mælst í Bárðarbungu undanfarið.

Kristín segir að líklegt sé að kvikan fari frá Bárðarbungu, eftir kvikuganginum komi síðan upp í gosinu í Holuhrauninu.

„Þetta er frekar stöðugt og sigið er um 40 sentímetrar á dag. Hluti af siginu gerist án skjálftavirkni en svo koma stórir skjálftar og þá sígur öskjugólfið ennþá meira,“ segir Kristín sem bætir við að stærstu skjálftarnir raði sér á öskjubrún Bárðarbungu.

Aðspurð hvort að skjálftarnir bendi til þess að gos sé að hefjast í Bárðarbungu segir Kristín ómögulegt að segja til með það. 

„Við erum að fylgjast með þessari virkni og við erum með augun á Bárðarbungu. En ef að kvika færi að koma þarna upp þá myndum við sjá það í óróa á jarðskjálftamælunum. Síðustu vikur hafa verið mjög svipaðar, stöðugt sig, gosið í Holuhrauni og þessir skjálftar.“

Stór skjálfti í Bárðarbungu

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert