Gísli Rafn Ólafsson, Íslendingurinn sem nú dvelur í Líberíu til að aðstoða heimamenn í baráttunni gegn ebólufaraldrinum, mun ekki koma heim til Íslands fyrr rúmum þremur vikum eftir að hann fer frá Líberíu.
Gísli skrifar færslu á Facebook-síðu sína en þar segir hann að honum hafi borist til eyrna að ákvörðun hans um að fara til Líberíu hafi valdið óánægju innan heilbrigðisgeirans hér á landi, þar sem ekki hafi verið búið að koma á viðbragðsáætlun fyrir ebólu á Íslandi.
Með færslunni segist hann vilja varpa ljósi á málið.
Gísli Rafn segist hafa vitað að á Íslandi væri enginn spítali og engin aðstaða til að taka við sjúklingum með ebólu.
Því hafi sú ákvörðun verið tekin að hann kæmi ekki til Íslands fyrr en að minnsta kosti rúmum þremur vikum eftir að hann fer frá Líberíu, en lengsti tími þar til einkenni koma fram er 21 dagur.
Hann segir að flestir fái aftur á móti einkenni innan átta daga. Mun Gísli Rafn dvelja á sjúkrahúsi í Belgíu.
„Þessar ákvarðanir voru teknar í samráði við ráðleggingar CDC (Smitsjúkdómastofnunar Bandaríkjanna) um hvernig þeir sem starfa við hjálparstarf eiga að hegða sér,“ skrifar Gísli Rafn.
Hann segist einnig hafa rætt við lækni hér á landi áður en hann fór út sem hafi veitt honum ráðleggingar en aldrei hafi komið til tals að banna honum að fara til Líberíu.
Þá segist hann einnig hafa rætt við erlendan sérfræðilækni sem taldi ákvörðunin mjög ásættanlega. Læknirinn er í daglegu sambandi við Gísla Rafn og fylgist með honum.
Gísli Rafn hefur búið í erlendis í fjögur ár og er ekki kominn inn í sjúkratryggingakerfið hér á landi.
Þar þem hann væri þá ótryggður hvar sem er í heiminum ef eitthvað kæmi upp á tóku hjálparsamtökin sem Gísli Rafn starfar hjá dýra sérhæfða sjúkratryggingu til að geta greitt allan hugsanlegan lækniskostnað.
„Ég er ekki að setja íslenska heilbrigðiskerfið á hausinn ef eitthvað kæmi upp. Ég er ekki að koma til Íslands í mánuð frá heimkomu frá Líberíu. Ég er ekki að setja vini eða fjölskyldu í hættu. Ég er að fara eftir fyrirmælum virtasta sóttvarnaraðila í heiminum. Ég er í sjálfskipaðri sóttkví í landi sem er tilbúið að taka á við ebólu. Ég er með aðgang að sérfræðilækni 24/7 til að fá faglega ráðgjöf. Ég tek meðvitaðar ákvarðanir um áhættu og hjálpa þeim sem eru í neyð,“ skrifar Gísli Rafn.