Eva Hauks fær aðgang að skýrslu Geirs Jóns

Eva Hauksdóttir.
Eva Hauksdóttir. mbl.is/Árni Sæberg

Eva Hauksdóttir fær aukinn aðgang að skýrslu Geirs Jóns Þórissonar, fyrrverandi yfirlögregluþjóns, um skiplag lögreglu við mótmælin 2008-2011. Þetta er niðurstaða úrskurðarnefndar um upplýsingamál.

Nefndin ákvað að taka málið er varðar kæru yfir þeirri ákvörðun lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu að synja Evu um aðgang að skýrslunni til úrskurðar að nýju. Eftir nýja yfirferð á efni skýrslunnar varð það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að veita bæri kæranda, Evu Hauksdóttur, aðgang að henni, en með þeim takmörkunum sem taldar eru upp í úrskurðarorði. 

Forsaga málsins er sú að í desember 2012 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp úrskurð vegna kæru Evu yfir þeirri ákvörðun lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu að synja henni um aðgang að skýrslu sem ber heitið: „Samantekt á skipulagi lögreglu við mótmælin 2008 til 2011.“ Í úrskurðarorðinu segir: „Beiðni [A], dags. 15. september 2012, er vísað til lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu til nýrrar meðferðar og afgreiðslu á grundvelli upplýsingalaga nr. 50/1996.“ Hinn 4. janúar 2013 synjaði lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu beiðninni á ný.

Synjun lögreglustjórans var kærð til úrskurðarnefndar um upplýsingamál í janúar 2013 og lauk meðferð þess máls með úrskurði í júlí það ár. Í honum var synjun lögreglustjórans staðfest, en þó þannig að veita skyldi aðgang að köflum sem heita „Gagnrýni. Viðhorf annarra, s.s. fjölmiðla“ og að tiltekinni umfjöllun um kæranda.

Eva kvartaði yfir þessum úrskurði til umboðsmanns Alþingis. Með bréfi í apríl 2013 gerði nefndin umboðsmanni grein fyrir því að hún væri reiðubúin til að endurupptaka málið, bærist henni ósk þess efnis frá kæranda. Hinn 23. júní 2013 barst slík ósk og hefur úrskurðurinn nú að geyma nýja niðurstöðu um skyldu lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu til að afhenda umrædda skýrslu.  

Hér má lesa úrskurð nefndarinnar í heild og þær takmarkanir sem eru á aðgangi Evu að skýrslunni.

Frétt mbl.is: Aðgangur Evu Hauks takmarkaður

Mótmæli við Alþingi.
Mótmæli við Alþingi. mbl.is/Júlíus
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert