Ólafur Darri og Kristín Þóra hlutu styrk

Vigdís Finnbogadóttir og Kristín Þóra Haraldsdóttir í kvöld.
Vigdís Finnbogadóttir og Kristín Þóra Haraldsdóttir í kvöld. mbl.is/Golli

Tilkynnt var um úthlutun úr Minningarsjóði frú Stefaníu Guðmundsdóttur leikkonu við hátíðlega athöfn í Borgarleikhúsinu í dag. Stefanía Borg, formaður sjóðsins ávarpaði gesti og rifjaði upp tildrögin að stofnun sjóðsins og sögu hans. Sunna Borg, systir hennar og meðstjórnandi sjóðsins tilkynnti um úthlutunina.

Styrki hlutu að þessu sinni leikararnir Ólafur Darri Ólafsson og Kristín Þóra Haraldsdóttir. Styrkupphæðin nemur 750.000 krónum til hvors þeirra. Þá fengu þau Stefaníustjakann sem viðurkenningu fyrir frábæran árangur á sviði leiklistar.

Styrkir úr sjóðnum hafa verið veittir frá árinu 1970 og hafa fjölmargir af fremstu leikurum okkar og leiklistarmönnum hlotið styrk á þeim tíma. Markmið sjóðsins er að heiðra og styrkja leikkonur og leikara til framhaldsnáms, eða námsferða erlendis, til frekari þroska á listabrautinni. Þau Ólafur og Kristín eru meðal 43 leikara, svokallaðra Stefaníubarna, sem hlotið hafa styrk úr sjóðnum. 

„Við höfum öll þörf fyrir stuðning“

„Þótt aðstæður í þjóðfélaginu hafi gjörbreyst frá því að hugmyndin að stofnun sjóðsins fæddist árið 1938 þá hefur mannlegi þátturinn, eðli mannsins, ekkert breyst, við höfum öll þörf fyrir stuðning og viðurkenningu,“ sagði Stefanía Borg við athöfnina í dag.

Sjóðurinn var stofnaður árið 1938 af hjónunum Önnu Borg og Poul Reumert, til að efla íslenska leiklist og heiðra um leið minningu Stefaníu Guðmundsdóttur, móður Önnu. Stefanía (1876-1926) var einn af merkustu brautryðjendum leiklistar á Íslandi og almennt talin fremsti leikari þjóðarinnar um sína daga. 

Sjóðurinn var í upphafi stofnaður fyrir tekjur af gestaleikjum þeirra hjóna í Reykjavík vorið 1938. Poul Reumert var einn dáðasti leikari Dana á þessum árum. Eftir að Anna fórst með Hrímfaxa árið 1963 stóð eiginmaður hennar fyrir því að gefa út endurminningar hennar, bæði á dönsku og íslensku. Allur hagnaður af sölu hennar bæði hér og í Danmörku, rann inn í sjóðinn, sem var í kjölfarið formlega stofnaður með staðfestri skipulagsskrá árið 1965, eða fyrir tæplega 50 árum síðan. 

Árið 2006 voru liðin 130 ár frá fæðingu Stefaníu og ákvað sjóðsstjórnin þá að láta gera sérstakan viðurkenningargrip, Stefaníustjakann, og var öllum fyrri styrkþegum afhentur stjakinn, sem er hannaður af Þorsteini Gunnarssyni leikara og arkitekt. 

Heimasíða sjóðsins

Lovísa Ósk Gunnarsdóttir (t.v.) veitti verðlaununum viðtöku fyrir hönd Ólafs …
Lovísa Ósk Gunnarsdóttir (t.v.) veitti verðlaununum viðtöku fyrir hönd Ólafs Darra. Hér sést hún ásamt tengdamóður sinni og móður Ólafs Darra, Björk Finnbogadóttur. mbl.is/Golli
Ólafur Darri Ólafsson
Ólafur Darri Ólafsson mbl.is/Einar Falur
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert