Nýr Glanni Glæpur í Latabæ

Stefán Karl í hlutverki Glanna Glæps ásamt þeim Arnmundi Erns …
Stefán Karl í hlutverki Glanna Glæps ásamt þeim Arnmundi Erns Backman og Oddi Júlíussyni auk Þóris Sæmundssonar sem nú fer með hlutverk Glanna. Ljósmynd/ Eggert Jonsson

Þórir Sæmundsson hefur tekið við hlutverki Glanna Glæps af Stefáni Karli Stefánssyni í uppsetningu Þjóðleikhússins á Ævintýri í Latabæ.

Mun ástæðan sú að Stefán hefur haldið til Bandaríkjanna þar sem hann hefur tekið að sér hlutverk Trölla (The Grinch) í farandsýningunni Þegar Trölli stal jólunum (How the Grinch Stole Christmas!) eftir Dr. Seuss. Stefán hefur raunar leikið Trölla fyrir hver jól síðastliðin ár og segir Ari Matthíasson, framkvæmdastjóri Þjóðleikhússins að Stefán muni leika í átta sýningum á viku.

„Þetta er svakaleg törn hjá honum en hann hefur fyrir stórri fjölskyldu að sjá og menn þurfa stundum að fara í vegavinnu,“ segir Ari.

Engin vörusvik

Ari segir Þóri hafa leikið Glanna Glæp í síðustu þremur sýningum verksins og að vel hafi tekist til. Þórir fór áður með minna hlutverk í sýningunni sem einn af leiguglæpamönnum Glanna Glæps en Snorri Engilbertsson hefur nú stigið inn í það hlutverk.

„Hann hefur verið í sýningunni frá fyrstu æfingu og þekkir hana vel, hann skipti bara aðeins um hlutverk innan hennar,“ segir Ari sem telur mannabreytinguna ekki koma að sök. 

„Hann er frábær og gerir þetta afskaplega vel þó það sé auðvitað erfitt að feta í fótspor Stefáns Karls sem er hreinlega einstakur snillingur.“

Ari telur það frekar vera foreldrana en börnin sem taka eftir mannabreytingunni. „Þó svo að Þórir leiki hlutverkið ekki nákvæmlega eins gerir hann það afar vel, hér eru engin vörusvik á ferð,“ segir Ari. Hann telur ólíklegt að breytt verði um andlit í þeim auglýsingum þar sem Glanna Glæp er að finna enda sé gert ráð fyrir að Stefán Karl snúi aftur í hlutverkið eftir áramót.

Ari Matthíasson
Ari Matthíasson Ernir Eyjólfsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka