Rétthafinn núna skráður í Bretlandi

Skjáskot

Rétthafi lénanna Khilafah.is og Khilafa.is, sem tengd voru við vefsíðu með efni frá hryðjuverkasamtökunum Ríki íslams, hefur breytt heimilisfangi sínu vegna skráningu þeirra og er nú sagður til heimilis í Bretlandi. Áður var hann skráður til heimilis á Nýja-Sjálandi. Nýja heimilisfangið er Suite D7559, 68 Tanners Drive, Blakelands í bænum Milton Keynes.

Lénunum var lokað af ISNIC á sunnudaginn fyrir viku þar sem notkun þeirra taldist hvorki samræmast reglum fyrirtækisins né íslenskum lögum. Fram hefur hins vegar komið hjá forsvarsmönnum ISNIC að meginástæðan fyrir þeirri ákvörðun hafi verið viðskiptahagsmunir fyrirtækisins. Ljóst hafi verið að Ríki íslams, sem kallar sig Islamic State á ensku eða IS, hafi viljað tengja sig við .is lénaendinguna af augljósum ástæðum.

Eins og mbl.is fjallaði ítarlega um fyrir síðustu helgi komust nýsjálenskir fjölmiðlar að því að fyrra heimilisfangið væri öryggishólf í byggingu þar sem tugir fyrirtækja væru skráð til heimilis. Aðferðin væri þekkt hjá þeim sem vildu í kjölfarið geta notað heimilisfangið við skráningu á til að mynda lénum og bankareikningum. Fyrirtækið sem veitti öryggishólfaþjónustuna kannast hins vegar ekki við þann einstakling sem skráður er fyrir lénunum tveimur, Azym Abdullah, og sagður vera þar til heimilis.

Jens Pétur Jensen, framkvæmdastjóri ISNIC, sagði aðspurður á fundi umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis í morgun að fyrirtækið hefði engin viðbrögð fengið frá rétthafa lénanna síðan þeim var lokað fyrir utan það að umræddum upplýsingum hefði verið breytt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka