Vonandi verða tvö íslensk lén sem fest var kaup á í tengslum við hryðjuverkasamtökin Ríki íslams þekkt fyrir það í framtíðinni að vera einu lénin sem lokað hefur verið hér á landi vegna notkunar þeirra. Þetta kom fram í máli Jens Péturs Jensen, framkvæmdastjóra ISNIC, á fundi umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis í morgun. Þar var rætt um þá ákvörðun fyrirtækisins að loka umræddum lénum, Khalifah.is og Khalifa.is, um síðustu helgi. Áður hafði Advania tekið ákvörðun um að loka vefsíðu sem tengd var við lénin. Í báðum tilfellum var vísað í viðskiptaskilmála og aðrar reglur fyrirtækjanna sem viðskiptavinir þeirra gengjust undir.
Jens lagði áherslu á að ákvörðunin hefði fyrst og fremst verið tekin á grundvelli viðskiptahagsmuna ISNIC en hún hafi hins vegar verið réttlætt með vísan í íslenskt lög. Vísaði hann þar til þess að reglur fyrirtækisins kveða meðal annars á um að rétthafar léns beri ábyrgð á því að notkun þeirra sé í samræmi við íslensk lög. Efnið á vefsíðunni hefði ekki verið ástæða þess að lénunum hafi verið lokað heldur misnotkun Ríkis íslams á lénaendingunni .is en samtökin kalla sig Islamic State á ensku eða IS. Ekki hefði verið hægt að una við það enda hefði þessari vöru fyrirtækisins í raun verið ógnað.
Fjársterkir aðilar í Ísrael vildu .is lénið
Jens nefndi í því sambandi að fyrir nokkrum árum hefðu áhrifamiklir og fjársterkir aðilar í Ísrael viljað fá .is lénið fyrir Ísrael en komið hefði verið í veg fyrir það. Hann greindi ennfremur frá því að ákvörðun ISNIC að loka léninum væri hins vegar umdeild á meðal starfsmanna fyrirtækisins. Um helmingur þeirra teldi hana vera ranga en það var stjórn fyrirtækisins sem tók ákvörðunina. Ítrekaði hann að málið væri fordæmalaust. ISNIC hefði aldrei áður lokað léni með þessum hætti. Verkefnið framundan væri að endurvinna traust. Maríus Ólafsson, netstjóri ISNIC, bætti því við að helmingur starfsmanna fyrirtækisins væru enda Píratar.
Sjálfur sagðist Maríus hafa talið rétt að bíða eftir úrskurði af hálfu yfirvalda áður en lénunum var lokað. Eins og til að mynda skilaboðum sem síðar bárust símleiðis frá utanríkisráðuneytinu um að viðskipti við aðila eins og þá sem stæðu að umræddri vefsíðu brytu í bága við hérlenda reglugerð sem byggði á alþjóðlegum samþykktum um varnir gegn hryðjuverkum. Hann hefði ekki talið ISNIC rétta aðilann til að taka slíka ákvörðun. Það breytti því ekki að þarna hefði verið ákveðin hætta á ruglingi sem hafi farið gegn hagsmunum fyrirtækisins.
Gæti verið notað fyrir sagnfræði næst
Spurður af nefndarmönnum hver viðbrögðin yrðu þegar næsta slæma lén yrði skráð sagði Jens ómögulegt að segja hvernig það yrði. Vonandi kæmi aldrei til þess að taka þyrfti slíka ákvörðun. Málið væri fordæmalaust hjá ISNIC eins og áður hefði komið fram. Hann lagði hins vegar áherslu á að lén gæti í raun aldrei verið slæmt. Það kæmi ekki í ljós fyrr en síðar hvort notkun þess væri hins vegar slæm eða ekki. Þannig gæti til dæmis gæti einhver fengið skráð lénið Khilafah.is síðar í þeim tilgangi að fjalla um kalífadæmi á öldum áður frá sagnfræðilegum sjónarhóli.
Maríus vakti ennfremur athygli á því að ISNIC sæi ekki um að úthluta lénum heldur aðeins skrá þau samkvæmt óskum viðskiptavina. Þá færi skráning léna fram um allt netið í gegnum ýmsa milliaðila. Jens benti á að það væri þannig ekki raunhæft að skilyrða til að mynda skráningu léna einungis við einhverja tengda landinu eins og meðal annars hefði komið fram hjá Ögmundi Jónassyni, þingmanni Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs, um málið.