Erla Hlynsdóttir vann málið

Mannréttindadómstóll Evrópu
Mannréttindadómstóll Evrópu

Blaðamaðurinn Erla Hlynsdóttir vann sitt annað mál gegn íslenska ríkinu fyrir Mannréttindadómstól Evrópu í morgun. Nú snerist málið um ummæli viðmælenda hennar um eiginkonu Guðmundar Jónssonar sem rak meðferðarheimilið Byrgið á þessum tíma. Fréttin birtist í DV árið 2007.

Mannréttindadómstóllinn dæmdi að íslenska ríkið hefði brotið gegn 10. grein Mannréttindasáttmála Evrópu sem fjallar um tjáningarfrelsið, en í fyrra máli Erlu fyrir Mannréttindadómstólnum var einnig tekist á um 10. grein Mannréttindasáttmálans sem hefur verið löggiltur hér á landi. Íslenska ríkinu er gert að greiða Erlu 8.000 evrur í bætur, en það svarar til 1.200 þúsund króna.

Viðmælendur sýknaðir í Hæstarétti en blaðamaðurinn dæmdur fyrir ummæli þeirra

Erla starfaði á þessum tíma hjá DV en hún er nú blaðamaður hjá Fréttatímanum. Í helgarútgáfu DV hinn 31. ágúst 2007 fjallaði Erla um mál sem tengdust hjónunum sem ráku meðferðarstofnunina Byrgið á þessum tíma. Guðmundur Jónsson var sakaður um að hafa beitt stúlkur sem dvöldu í Byrginu kynferðislegu ofbeldi og hann var síðar dæmdur í tveggja og hálfs árs fangelsi í Hæstarétti fyrir kynferðisbrot gegn þremur konum sem voru skjólstæðingar hans. Hann var ennfremur dæmdur til að greiða þeim bætur að upphæð 800 þúsund til ein milljón króna. Hann var hins vegar sýknaður af ákærum um brot gegn fjórðu konunni.

Í DV birti Erla viðtal við konur sem höfðu orðið fyrir ofbeldi af hálfu Guðmundar og þar er því lýst að eiginkona Guðmundar, Helga Haraldsdóttir, hafi tekið virkan þátt í kynlífsleikjum Guðmundar sem sjúklingar voru látnir taka þátt í þegar þeir dvöldu í Byrginu. Var konunum tjáð af þeim Guðmundi og Helgu að kynlífsleikirnir væru hluti af lækningameðferðinni.

Erla var í Hæstarétti árið 2010 dæmd til að greiða Helgu bætur vegna viðtalsins. Um­mæli í viðtal­inu voru að auki ómerkt. Viðmælendurnir voru hins vegar sýknaðir.

Helga krafðist þess að fjór­tán til­greind um­mæli viðmæl­enda DV um hana yrðu dæmd dauð og ómerk. Einnig krafðist hún bóta og þess að blaðamaður­inn og viðmæl­end­urn­ir yrðu dæmd til refs­ing­ar.

Grein­in var að mestu byggð á um­mæl­um og sög­um viðmæl­enda um Guðmund. Að mati Helgu voru þar einnig al­var­leg­ar full­yrðing­ar þar sem vegið var að per­sónu, æru og starfs­heiðri henn­ar. Þá hefði hún einnig verið sökuð um hátt­semi sem gæti tal­ist refsi­verð sam­kvæmt ís­lensk­um lög­um. Fyr­ir­sögn grein­ar­inn­ar var Árás­ir satans en auk henn­ar var nafn Helgu feitletrað ásamt upp­lýs­ing­um um starfsstað henn­ar og starfs­heiti.

Hæstirétt­ur féllst á að ómerkja ein um­mæli í viðtal­inu og ekki þau sömu og Héraðsdóm­ur Reykja­vík­ur. Báðir dóm­stól­ar höfnuðu refsi­kröf­um og bóta­kröf­um á viðmæl­end­urna. Erla Hlyns­dótt­ir blaðamaður, sem skrifaði viðtalið, var hins veg­ar dæmd til að greiða Helgu 300 þúsund krón­ur í miska­bæt­ur þar sem hún var nafn­greind sem höf­und­ur grein­ar­inn­ar.

Um­mæl­in sem voru höfð eft­ir vist­mann­in­um fyrr­ver­andi eru:  „... ekki við hæfi að sú sem veiðir fyr­ir hann vinni við grunn­skóla.“ Hæstirétt­ur taldi að með þeim orðum hefði verið gefið til kynna að Helga hefði gerst sek um refsi­vert at­hæfi, sem ekki hefði verið sannað.

Í júlí 2012 tapaði íslenska ríkið máli sem blaðamennirnir Björk Eiðsdóttir og Erla Hlynsdóttir höfðuðu gegn íslenska ríkinu fyrir Mannréttindadómstól Evrópu. Dómstóllinn taldi að brotið hefði verið gegn 10. gr. mannréttindasáttmála Evrópu þar sem fjallað er um tjáningarfrelsið þegar þær voru dæmdar hér á landi fyrir meiðyrði með störfum sínum þar sem þær vitnuðu beint í viðmælendur sína.

Mál Bjarkar var fyrst lagt fram fyrir dómstólinn 20. ágúst 2009 og mál Erlu 21. júní 2010. Þær voru dæmdar í aðskildum málum hér á landi fyrir meiðyrði. Björk var dæmd fyrir meiðyrði í svokölluðu Vikumáli, en stefnandi í því var eigandi nektarstaðarins Goldfinger. Erla var dæmd fyrir meiðyrði fyrir umfjöllun sína um nektarstaðinn Strawberries í Lækjargötu.

Samkvæmt upplýsingum frá lögmanni Erlu, Gunnari Inga Jóhannssyni hjá Lögmönnum Höfðabakka, var málið kært til Mannréttindadómstólsins í ágúst 2010. Þriðja mál Erlu gegn Íslandi er enn til meðferðar hjá Mannréttindadómstólnum en það varðar einnig mörk tjáningarfrelsis. 

Þetta er því þriðja málið á tveimur árum sem Mannréttindadómstóllinn dæmir gegn Íslandi þar sem tekist er á um mörk tjáningarfrelsis blaðamanna á Íslandi. Í öllum málunum hefur dómstóllinn úrskurðað að niðurstaða íslenskra dómstóla í meiðyrðamáli á hendur blaðamanni hafi brotið gegn 10. gr. mannréttindasáttmála Evrópu um tjáningarfrelsi og verið til þess fallin að vega að rétti og skyldu fjölmiðla til miðlunar upplýsinga um mál sem eiga erindi við almenning, að sögn Gunnars en Lögmenn Höfðabakka hafa rekið öll þessi mál fyrir mannréttindadómstólnum.

Dómurinn í heild

Erla Hlynsdóttir
Erla Hlynsdóttir mbl.is/Ómar Óskarsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert