Meðlimum Devils Choice vísað úr landi

Devils Choice MC Iceland.
Devils Choice MC Iceland.

Tveir norskir ríkisborgarar voru á föstudag stöðvaðir við komuna til landsins og í kjölfarið var þeim vísað úr landi. Mennirnir sem eru meðlimir í vélhjólasamtökunum Devils Choice voru í fylgd eiginkvenna sinna og hugðist fólkið verja helginni í ferðalög um Ísland. Þau áttu bókað far til baka í gær.

Á sama tíma í fyrra vísuðu landamæraverðir á annan tug meðlima vélhjólasamtaka úr landi en þeir komu hingað til að taka þátt í afmælisveislu Devils Choice á Íslandi. Karl Þórðarson, formaður Devils Choice MC Ice­land, segir að mennirnir tveir sem komu á föstudag hafi ekki ætlað að mæta í árlega afmælisveislu sem fram fer um næstu helgi. Þá hafi þeir ekki verið merktir samtökunum þegar þeir voru stöðvaðir. „Það er mér óskiljanlegt af hverju þeim var vísað frá. Þeir voru tveir með konunum sínum, búnir að skipuleggja ferð til Vestmannaeyja og ætluðu að ferðast um landið.“

Afmælisveislan fer fram um næstu helgi og er þetta níunda árið í röð sem hún er haldin, en áður en nafnið Devils Choice var tekið upp hétu samtökin Hog Riders. Karl segist ekki vita hvort útlenskir vinir samtakanna láti sjá sig í ár. „Ég vona að það sé ekki búið að fæla alla í burtu. En ég hef ekki hugmynd um hverjum við eigum von á.“

Frétt mbl.is: „Sömu menn heimsótt okkur í átta ár“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka