Vefsíðan, sem haldið var út undir íslensku lénunum Khilafah.is og Khilafa.is til skamms tíma þar til ISNIC lokaði þeim fyrir rúmri viku, verður opnuð að nýju í næstu viku með nýju léni. Nýja lénið er Khilafah.link. Þetta er boðað á Twitter-síðunni @QA_FA sem tengist síðunni.
Þegar er birt sama bráðabirgðasíða þar sem birtist undir íslensku lénunum um þarsíðustu helgi eftir að Advania lokaði á hýsingu síðunnar og áður en ISNIC tók þá ákvörðun að loka lénunum. Í báðum tilfellum var vísað til viðskiptaskilmála og annarra reglna fyrirtækjanna. Sami einstaklingur er skráður fyrir nýja léninu, Azym Abdullah, og er skráður fyrir íslensku lénunum. Hann er hins vegar sagður til heimilis í Wellington, höfuðborg Nýja-Sjálands, í skráningu nýja lénsins en í Bretlandi í tilfelli íslensku lénanna. Áður var hann skráður á annað nýsjálenskt heimilisfang vegna íslensku lénanna.
Færslan á Twitter-síðunni er svohljóðandi: „Ef Allah lofar, Khilafah.is mun snúa aftur sem http://khilafah.link í næstu viku.“ Ennfremur segir að ekki hafi verið hætt að uppfæra vefsíðuna þó hún hafi legið niðri. Er birt skjámynd af síðunni því til sönnunar.
Ennfremur segir á Twitter-síðunni í samtali við einstakling að nafni David Merfield að þeim sem skrifi á síðuna skiljist að ISNIC hafi á endanum farið að fyrirmælum frá íslenska utanríkisráðuneytinu við lokun lénanna sem aftur hafi vísað í reglugerð um varnir gegn hryðjuverkum. Tengill fylgir á reglugerðina sem er á íslensku.
Þá segir að einu skilaboðin sem borist hafi frá ISNIC vegna lénanna hafi verið stöðluð tilkynning um að lénin hafi tekin úr sambandi eða sett í bið vegna þess að skráningarupplýsingar hafi verið rangar eða ófullnægjandi. Rétthafi lénanna hafi 60 daga til að lagfæra skráninguna. Beðið er um að ISNIC sé tilkynnt um það þegar lagfæring hafi átt sér stað.
Forsvarsmenn ISNIC hafa sagt að þeir hafi reynt að hafa samband við rétthafa lénanna áður en þeim var lokað, bæði í gegnum netfang sem gefið var upp við skráninguna og símanúmer en án árangurs. Þeim sem stendur að Twitter-síðunni virðist ókunnugt um það.