„Ég heyrði í lögreglusírenum og svo sá ég göturnar tæmast,“ segir Ólöf Sigvaldadóttir, sendiráðsfulltrúi í sendiráði Íslands í Ottawa í Kanada, í samtali við mbl.is. Skotum var hleypt af við þinghúsið í borginni í dag, í aðeins 5 mínútna göngufjarlægð frá skrifstofu Ólafar.
Skotum var einnig hleypt af við stríðsminnisvarða í borginni og í Rideau verslunarmiðstöðinni í dag. Einn byssumaður hefur verið skotinn til bana, en talið er að annar byssumaður gangi enn laus. Hermaður sem byssumaðurinn skaut við stríðsminnisvarðann í Ottawa í dag hefur látist af sárum sínum.
„Maður gerir sér ekki grein fyrir því hvort það sé ennþá einhver byssumaður í borginni en það virðist samt ekki vera hræðsla á meðal fólks. Lögreglan tók þetta strax föstum tökum svo fólki líður eins og það sé öruggt,“ segir Ólöf. Hún segir fólki þó hafa verið verulega brugðið þar sem Ottawa sé mjög friðsæl borg. „Þetta er eitthvað sem fólk er ekki vant. Þetta er mjög friðsæl og örugg borg og fólk er alveg svakalega kurteist og almennilegt.“
Ólöf segir mikinn viðbúnað vera í borginni, og miðbærinn sé enn lokaður. „Ríkisstarfsmenn hafa ekki fengið að fara heim úr miðbænum og voru beðnir að vera ekki nálægt gluggum í byggingum sínum. Svo voru hermenn beðnir að vera ekki á almannafæri í herbúningum svo þeir væru ekki skotmark.“
Sendiráðið er staðsett í stórri skrifstofubyggingu í miðbænum, en henni var lokað fyrr í dag eftir að skotárásirnar áttu sér stað. „Það komst enginn inn í bygginguna nema hafa skilríki,“ segir Ólöf, sem enn er föst í miðbænum og sér ekki fram á að komast heim til sín í bráð. „Það hafa myndast miklar umferðarteppur þar sem svo mörgum götum hefur verið lokað. En maður setur bara góðan geisladisk í og býr sig undir að þurfa að sitja lengi í bílnum,“ segir hún og hlær.
Ólöf segir mikið rætt um það hvort atvikið muni breyta því hvernig öryggiseftirliti er háttað í borginni. Hún segist þó vona að þetta breyti ekki aðgengi fólks að þinghúsinu því það sé mjög sjarmerandi. „Þetta er staður sem mikið af fólki og túristum fara á og það væri sorglegt að missa það,“ segir hún.
„Það er mikið lagt upp úr því að þingbyggingarnar séu opnar almenningi og fólk geti farið þarna inn og hlustað á fyrirspurnartíma í þinginu og séð þingmennina,“ segir Ólöf, en bætir því við að fólk komist ekki inn í húsið nema fara í öryggisleit. Byssumaðurinn fór þó inn í húsið um inngang sem er aðeins fyrir starfsfólk. „Það er ekki vitað nákvæmlega hvað hann gerði og hvernig hann komst inn,“ segir Ólöf. „Fólk átti ekki von á þessu og það gæti verið ástæða þess að hann komst svona langt.“
Ólöf segist ekki vita um neinn Íslending sem var á svæðinu þegar skotunum var hleypt af í dag. Hún segir þó nokkur símtöl hafa borist frá íslenskum ferðamönnum í borginni, en enginn þeirra hafi verið á þeim stöðum sem skotunum var hleypt af.
Árásin átti sér stað nokkrum klukkustundum eftir að kanadísk stjórnvöld ákváðu að hækka viðbúnaðarstig vegna hættu á hryðjuverkaárás í landinu, en það var gert eftir að annar hermaður lést eftir að hafa orðið fyrir bifreið. Sá sem ók bifreiðinni er maður sem hafði tekið upp íslamstrú.