Lalli sjúkraliði fær ekki bætur

Lögregla ræðir við Lárus Pál Birgisson framan við sendiráðið í …
Lögregla ræðir við Lárus Pál Birgisson framan við sendiráðið í júlí 2010. mbl.is/Jakob Fannar

Íslenska ríkið var í dag sýknað í Héraðsdómi Reykjavíkur af kröfum Lárusar Páls Birgissonar, sem betur er þekktur sem Lalli sjúkraliði. Lárus fór fram á bætur vegna handtöku hans fyrir utan bandaríska sendiráðið 1. október 2009 og 4. nóvember 2010, og óréttlátrar málsmeðferðar fyrir dómi.

Lárus Páll hefur verið dæmdur til refsingar í tvígang vegna þeirra atvika sem um var deilt í þessu máli og leiddu til handtöku hans, en hann hefur hélt uppi þeirri málsástæðu að umræddar handtökur hafi eins og á stóð falið í sér brot gegn tjáningarfrelsi hans og öðrum tilgreindum mannréttindum, auk þess að hafa ekki stuðst við gildar handtökuheimildir í lögum. Hann fór fram á 2,5 milljón króna í bætur.

Dómurinn leit til þess að í umrædd skipti höfðu lögreglu borist kvartanir frá starfsfólki sendiráðs Bandaríkjanna um að Lárus Páll truflaði starfsemi sendiráðsins við inngang þess og var lögregla þess vegna tilkvödd á vettvang. „Ekki er um það deilt í málinu að gangstétt innan blómakera þar sem stefnandi stóð og viðhafði mótmæli teljist ekki til sendiráðssvæðisins. Þá er ekki heldur deilt um að stefnandi fékk skýr fyrirmæli frá lögreglu í bæði skipti um að færa sig út fyrir gangstéttina innan blómakeranna við innganginn sem hann neitaði að gera.“

Í niðurstöðu héraðsdóms er vísað til 2. mgr. 22. gr. Vínarsamnings um stjórnmálasamband ríkja, sbr. lög nr. 16/1971, en þar kemur fram, að sérstök skylda hvíli á móttökuríki til að gera allar þær ráðstafanir, sem viðeigandi eru, til að vernda sendiráðssvæðið fyrir öllum árásum og tjóni og koma í veg fyrir röskun á friði sendiráðsins eða skerðingu á virðingu þess.

Dómurinn sagði að túlka verði það svo að þær ráðstafanir sem yfirvöld geti gripið til í þessu skyni takmarkist eðli máls samkvæmt ekki aðeins við sendiráðssvæðið heldur geti enn fremur átt við um almenning í næsta nágrenni þess eins og hér stóð á.

Þá var ekki fallist á það með Lárusi Páli að aðgerðir lögreglu og handtaka hans í greind skipti hafi ekki stuðst við gilda lagaheimild. „Með því að neita að fara að boði lögreglu braut stefnandi gegn 19. gr. laga nr. 90/1996, eins og þegar hefur verið fjallað um í dómi, annars vegar í máli S-349/2010, frá 9. júlí 2010, en hins vegar í dómi í máli S-16/2011, frá 16. nóvember 2011. Er það mat dómsins að aðgerðir lögreglu í bæði greind skipti, hafi líkt og stefndi byggir á, haft fullnægjandi stoð í 2. mgr. 15. gr. laga nr. 90/1996, sbr. a-lið 1. mgr. 16. gr. sömu laga, en að hin eiginlega handtökuheimild styðjist ekki við 19. gr. laganna, eins og stefnandi virðist byggja á.“

Að endingu var ekki fallist á það að málsmeðferð í sakamáli nr. S-16/2011 hafi falið í sér brot gegn réttindum hans samkvæmt 70. gr. stjórnarskrár eða 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994.

Var íslenska ríkið því sýknað af kröfum Lárusar.

Sendiráð Bandaríkjanna í Reykjavík.
Sendiráð Bandaríkjanna í Reykjavík. mbl.is/Sverrir
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka