Ótrúleg uppákoma í bílakjallara

Skjáskot af YouTube

„Þetta gerist eingöngu í Hollywood og á Höfðatorgi,“ segir Albert Ómar Guðbrandsson, umsjónarmaður fasteigna sem sér meðal annars um húsnæðið við Höfðatorg, en hann birti fyrr í dag myndband úr öryggismyndavél í bílakjallaranum við Höfðatorg þar sem ökumaður sést hvolfa bíl sínum þegar hann reynir að bakka á hlið bílakjallarans.

Atburðurinn gerðist fyrir þremur árum, eða í júlí 2011. Albert segir margar áskoranir hafa borist til hans um að birta myndbandið, en hann hafi ekki viljað birta það fyrr en nú. „Viðbrögðin hafa verið rosaleg, vægast sagt,“ segir hann.

Albert segir hliðið hafa gjöreyðilagst og því hafi þurft að panta nýtt erlendis frá og skipta því út. „Ég gæti trúað því að heildartjónið væri upp á 5-6 milljónir,“ segir hann. Albert segir þó engan hafa slasast. „Sennilega hefur manngreyið verið í annarlegu ástandi og hreinlega ekki vitað hvað hann var að gera,“ útskýrir Albert.

Hann segir nóg af furðulegum atvikum eiga sér stað í bílakjallaranum, „en ekkert í líkingu við þetta.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert