„Það sem Jón Bjartmarz hefur kallað „skýrslu Ögmundar“ er samantekt á stöðu lögreglunnar sem byggð er á mati lögreglunnar sjálfrar, n.t.t. embættis ríkislögreglustjóra,“ segir Ögmundur Jónasson, fyrrverandi innanríkisráðherra. Hann er ósáttur við að hafa verið dreginn inn í umræðuna um vélbyssuvæðingu lögreglunnar.
Ögmundur segir í yfirlýsingu að Jón Bjartmarz, yfirlögregluþjónn hjá embætti ríkislögreglustjóra, hafi gengið fram fyrir skjöldu, fyrir hönd ráðherra og ríkislögreglustjóra, í fjölmiðlum til að réttlæta ákvarðanir um að koma vélbyssum fyrir í almennum lögreglubílum.
„Skýring hans er sú að engin eðlisbreyting á vopnaburði lögreglumanna eigi sér stað með þessu. Í raun sé einvörðungu verið að framfylgja því sem komið hafi fram í skýrslu sem gerð hafi verið í minni embættistíð sem innanríkisráðherra. Í framhaldinu hefur þessi talsmaður ríkislögreglustjóra og ráðherra vitnað beint í texta sem hann kallar „skýrslu Ögmundar“.
Ögmundur segir að í upphafi umræddrar skýrslu segir að á samráðsfundi ráðuneytisins með ríkislögreglustjóra hafi ríkislögreglustjóri skýrt frá því að hann hefði átt samráðsfundi með lögregluliðum úti á landi. Á þeim fundum hefðu eindregið komið fram að nú um stundir væri lögreglunni ókleift að leysa þau verkefni sem ætlast væri til af henni vegna fjárskorts og manneklu. Þá segir hann að í skýrslunni komi aðeins fram mat lögreglunnar á eigin stöðu.
„Hvergi í allri þessari umræðu né í neinum plöggum eða ábendingum sem fram komu í minni embættistíð er að finna stafkrók sem gæti gefið formælendum þessar umfangsmiklu vopnavæðingar lögreglunnar minnsta tilefni til að tala á þann veg sem Jón Bjartmarz yfirlögregluþjónn hefur leyft sér að gera. Yfirlögregluþjóninum tókst að nefna nafn mitt ófáum sinnum í Kastljósþætti sjónvarpsins og hefur verið óþreytandi í öðrum fjölmiðlum að bendla nafn mitt sem fyrrverandi innanríkisráðherra við málið og gefa þar með í skyn að það sé á mína ábyrgð. Með almennri vopnavæðingu sé lögreglan að bregðast við gagnrýni sem ég hafi sett fram! Málflutningur embættis ríkislögreglustjóra byggir hér á útúrsnúningi og staðlausum stöfum.“
Ennfremur segir Ögmundur að innan innanríkisráðuneytis og innan lögreglunnar hafi það verið þekkt viðhorf að hann sé andsnúinn því að almennir lögreglumenn beri vopn. Þar sé sérsveit lögreglunnar undanskilin auk þess sem hann hafi talið eðlilegt að hafa skotvopn í lögreglubílum sumstaðar í dreifðum byggðum komi til þess að aflífa þurfi skepnur. „Ég ítreka að þessi kaup og eðlisbreyting á búnaði almennu lögreglunnar er ekki með mínu samþykki. Dylgjur og ósannindamálflutningur af þessu tagi veikir því miður trúverðugleika lögreglunnar.“