Sérstakt lögbann þarf að koma til

Tal getur ekki lokað á aðgang viðskiptavina sinna að ákveðnum vefsíðum nema til komi lögbann í þeim efnum sem beinist að fyrirtækinu. Þetta segir Petrea Ingileif Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri Tals, í samtali við mbl.is.

Samband tónskálda og eigenda flutningsréttar (STEF) sendi á dögunum bréf til Tals, Símans og 365 miðla þar sem skorað er á fyrirtækin að loka á aðgengi viðskiptavina sinna að skráadeilisíðunum Deildu.net og Piratebay í kjölfar þeirrar niðurstöðu Héraðsdóms Reykjavíkur að sýslumaður skuli setja lögbann á aðgengi viðskiptavina fjarskiptafyrirtækjanna Vodafone og Hringdu að síðunum.

Fram hefur komið að 365 miðlar ætli að taka mið af niðurstöðu héraðsdóms en eins og mbl.is greindi frá fyrr í dag telur Síminn það ekki hlutverk fjarskiptafyrirtækja að taka ákvarðanir um að loka aðgengi að vefsíðum. Til þess þurfi sérstakt lögbann sem beint sé að fyrirtækinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert