Síminn vill sérstakt lögbann vegna Deildu.net

„Síminn telur það ekki hlutverk fjarskiptafyrirtækja að taka ákvarðanir um lokanir á aðgangi að heimasíðum,“ segir Gunnhildur Arna Gunnarsdóttir, upplýsingafulltrúi Símans, í samtali við mbl.is en fyrirtækið hyggst ekki verða við þeirri áskorun Samband tónskálda og eigenda flutningsrétta (STEF) að loka á aðgengi viðskiptavina sinna að skráaskiptasíðunum Deildu.net og Piratebay nema sýslumaðurinn í Reykjavík leggi lögbann á það.

Héraðsdómur Reykjavíkur lagði í síðustu viku fyrir sýslumanninn að leggja lögbann á þá athöfn fjarskiptafyrirtækjanna Vodafone og Hringdu að veita viðskiptavinum sínum aðgang að umræddum vefsíðum. Niðurstaðan náði hins vegar ekki til Símans, Tals og 365 miðla. STEF skoraði hins vegar á fyrirtækin þrjú að fara að því fordæmi sem hún hefði skapað. Eins og mbl.is hefur fjallað um hafa 365 miðlar þegar lýst því yfir að fyrirtækið ætli að taka mið af niðurstöðunni. Síminn telur hins vegar að sérstakt lögbann sem snúi að fyrirtækinu þurfi að koma til.

„Með beiðni STEF er í raun verið að biðja Símann um að heimfæra dóm yfir öðrum fjarskiptafyrirtækjum á Símann, þar sem líkur séu á að sambærilegur dómur myndi falla gagnvart Símanum. Síminn telur sér ekki fært að starfa með þeim hætti. Í ljósi niðurstöðu dómstóla telur Síminn því ekkert til fyrirstöðu að STEF leiti að nýju til sýslumanns og tryggi löglega og óumdeilda meðferð þessa máls, gagnvart Símanum, en enginn dómur hefur fallið gagn Símanum,“ segir Gunnhildur.

Hún leggur áherslu á að Síminn taki undir mikilvægi þess að höfundarréttur sé virtur og áréttar ennfremur að félagið muni ekki skorast undan því að hlíta niðurstöðum yfirvalda eða dómstóla sem beint er að félaginu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert