Jákvæð þróun hefur orðið á tannheilsu Íslendinga undanfarna tvo áratugi. Árið 2012 voru tæplega 80% Íslendinga á aldrinum 18–44 ára með allar eigin tennur (28 tennur eða fleiri), samanborið við rúmlega 50% árið 1990.
Eftir því sem fólk eldist fækkar eigin tönnum en tæplega 10% Íslendinga 65–79 ára voru með allar eigin tennur árið 2012. Árið 1990 voru hins vegar einungis 2,6% Íslendinga í þessum sama aldurshópi með allar eigin tennur.
Þetta kemur fram í Talnabrunni, fréttabréfi landlæknis um heilbrigðisupplýsingar.
Þar segir ennfremur, að á sama tíma og fjölgun hafi orðið í hópi fullorðinna með allar eigin tennur hafi tannlausum fækkað jafnt og þétt. Árið 2012 hafi tæplega 5% Íslendinga á aldrinum 18–79 ára tannlausir samanborið við tæplega 26% árið 1990.
„Þótt eigin tönnum fækki með hækkandi lífaldri fjölgar jafnt og þétt í þeim hópi eldri Íslendinga sem eru með 10 eða fleiri tennur í hvorum gómi. Notkun á lausum tanngervum, s.s. pörtum og heilgómum, er því á undanhaldi. Betri tannheilsa þessa elsta
aldurshóps stuðlar því að auknum lífsgæðum og auðveldar til muna tal, tyggingu og
tjáningargetu,“ segir í fréttabréfinu.