Greiddu ekki fyrir vopnin

Landhelgisgæslan hafði milligöngu um að aðstoða Ríkislögreglustjóra í þessu máli. …
Landhelgisgæslan hafði milligöngu um að aðstoða Ríkislögreglustjóra í þessu máli. Á sama tíma bauðst Landhelgisgæslunni að endurnýja gamlan og úreltan búnað sinn og nauðsynlegan varahlutalager. mbl.is/Árni Sæberg

Landhelgisgæslan hafði milligöngu um endurnýjun á vopnabúnaði lögreglunnar og endurnýjaði á sama tíma úreltan búnað Gæslunnar. LHG segir að vopnin hafi ekki verið formlega afhent ríkislögreglustjóra og bætir við að ekki hafi farið fram greiðslur vegna þessa samkomulags.

Þetta kemur fram í fréttatilkynningu sem Gæslan sendi frá sér í kvöld í kjölfar umfjöllunar RÚV, en þar var haft eftir upplýsingafulltrúa norska hersins að Landhelgisgæslan hefði í lok síðasta árs keypt 250 MP5 hríðskotabyssur af norska hernum. 

Ríkislögreglustjóri hefur einnig sent frá sér tilkynningu vegna sama máls.

Fram kemur í tilkynningunni, að Landhelgisgæslan hafi um langt árabil átt í mjög góðu samstarfi við Norðmenn um ýmis konar mál er varði þjálfun, búnaðarmál og öryggismál almennt og hafi notið dyggrar aðstoðar og rausnarskapar af þeirra hálfu. Meðal annars sé í gildi tvíhliða samstarfssamningur milli Íslands og Noregs frá árinu 2007 um samstarf á sviði öryggis- og varnarmála.  Þá sé Landhelgisgæslan tengiliður við erlendar stofnanir á þessum vettvangi. 

Athygli vekur að aldrei er talað um hríðskotabyssur í tilkynningunni, heldur er aðeins talað um „vopn“.

„Á þessum grundvelli og samkvæmt beiðni Ríkislögreglustjóra til Norðmanna, hafði Landhelgisgæslan milligöngu um að aðstoða Ríkislögreglustjóra í þessu máli.  Á sama tíma bauðst Landhelgisgæslunni að endurnýja gamlan og úreltan búnað sinn og nauðsynlegan varahlutalager.

Í þessu tilfelli eins og öllum sem snerta samstarf á þessu sviði, var gert samkomulag um útfærslur og framkvæmd.  Samkomulag um þennan búnað var verðmetið 1/8 af verðmæti sams konar búnaðar frá framleiðanda.  Landhelgisgæslan hefur notið aðstoðar og þjónustu norskra samstarfsstofnana um ýmis konar tækniaðstoð, þjálfun og búnaðarmál.  Hefur þá verið gert samkomulag þar sem þjónustan er verðmetin en aldrei hafa farið fram neinar greiðslur né hefur verið eftir því leitað. 

Ekki hafa farið fram greiðslur vegna umrædds búnaðar né hefur verið eftir þeim leitað og hefur Landhelgisgæslan ekki haft ástæðu til að ætla að öðruvísi verði farið með þetta mál en önnur samstarfsmál á þessum vettvangi,“ segir í tilkynningunni.

„Vopnin hafa ekki formlega verið afhent Ríkislögreglustjóra utan 35 stykkja sem Ríkislögreglustjóri fékk afnot af vegna æfinga innan Öryggissvæðisins á Keflavíkurflugvelli.  Þeim hefur verið skilað og eru vopnin öll geymd í viðurkenndum skotvopnageymslum. 

Ítrekað skal að ekki hafa farið fram greiðslur vegna þessa samkomulags og gerir Landhelgisgæslan ekki ráð fyrir að svo verði,“ segir ennfremur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert